Á aðalfundi Lífeyrissjóðs Austurlands var kosin ný stjórn og er hún þannig skipuð: Elvar Aðalsteinsson, Eskifirði, og Aðalsteinn Ingólfsson, Hornafirði, fyrir hönd atvinnurekenda og Sigurður Hólm Freysson, Eskifirði, og Þorkell Kolbeins, Hornafirði, frá verkalýðsfélögum.
Fjármálaeftirlitið gerði umfangsmikla athugun á starfsemi lífyrissjóðsins árið 2002 í framhaldi af því að komið hafði í ljós að óskráð verðbréf voru mun hærra hlutfall af eignum sjóðsins en heimilt var. Sjóðurinn hefur orðið fyrir miklum áföllum, einkum vegna verðfalls á erlendum eignum og þess að sjóðurinn var rekinn með mjög áhættusamri fjárfestingarstefnu sem gekk mjög á fé hans.
Því varð raunávöxtun sjóðsins neikvæð um 11,19%. Vegna breytinga í töflum um ævilíkur, sem hækkuðu skuldbindingar sjóðsins verulega, sýndi tryggingafræðileg úttekt sjóðsins að staða hans var mun verri en heimilt er samkvæmt lögum. Hættumörk eru dregin við það ef sjóðinn vantar meira en 10% upp á að geta staðið við skuldbindingar sínar, en í árslok 2002 var staða lífeyrissjóðsins neikvæð um 19%, eða um 6.346 milljónir króna.
Stjórn sjóðsins hefur lagt fram tillögur um skerðingu réttinda sjóðsfélaga, sem taka eiga gildi á árinu. Segir í skýrslunni að eftir þá skerðingu og þær breytingar sem gerðar hafa verið á fjárfestingarstefnu sjóðsins eigi staða hans að vera nokkuð traust.