Fjármálaráðherra hefur gefið út reglugerð nr. 224/2001 um breytingu á reglugerð nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Breytingarnar lúta að innheimtu lífeyrissjóða á vangoldnum iðgjöldum til skyldutryggingar lífeyrisréttinda og eftirliti ríkisskattstjóra með innheimtunni.
Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var ríkisskattstjóra (RSK) falið að hafa með höndum eftirlit með því að lögbundið lágmarksiðgjald væri greitt til lífeyrissjóðs vegna launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Árið 1999 var fyrsta heila starfsárið sem lífeyrissjóðir störfuðu eftir nýju lífeyrislögunum. Ríkisskattstjóri hefur nú sent lífeyrissjóðum lista yfir þá einstaklinga og lögaðila sem ekki hafa skilað lögboðnu iðgjaldi. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda annast innheimtu iðgjalda vegna einstaklinga sem ekki eiga aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Samkvæmt upplýsingum frá RSK höfðu lögboðin iðgjöld til lífeyrissjóða ekki verið greidd vegna um 10.500 einstaklinga vegna tekna ársins 1999. Upplýsingar um þessa einstaklinga voru sendar viðkomandi lífeyrissjóðum. Þar af var Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda falið að innheimta iðgjöld vegna u.þ.b. 5.800 einstaklinga. Þær breytingar sem nú eru gerðar á reglugerð nr. 391/1998, lúta að skyldu lífeyrissjóðanna til að innheimta vangoldinna iðgjalda, fyrirkomulagi innheimtunnar og eftirliti RSK með innheimtu lífeyrissjóðanna á hinum vangoldnu iðgjöldum. Mælt er fyrir um að lífeyrissjóðir skuli innheimta vangoldin iðgjöld vegna sjóðfélaga sinna á grundvelli upplýsinga frá ríkisskattstjóra. Lífeyrissjóður sem fær iðgjöld til innheimtu ber að upplýsa RSK um það ef á listunum eru einstaklingar sem eiga ekki aðild að sjóðnum. RSK sendir þá kröfur vegna þeirra einstaklinga til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sem annast innheimtu iðgjalda vegna þeirra. Í reglugerðinni kemur fram að fyrirkomulag og framkvæmd innheimtunnar sé á ábyrgð hvers og eins lífeyrissjóðs. Til þess að tryggja samræmi og festu í innheimtunni eru þó settar almennar leiðbeiningarreglur um innheimtuna. Þannig ber lífeyrissjóðum að hefja innheimtu án ástæðulausrar tafar og beita þeim úrræðum sem tæk eru að lögum með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru og halda innheimtuaðgerðum áfram með eðlilegum hraða til þess að tryggja örugga innheimtu vangoldinna iðgjalda. Ef almennar innheimtuaðgerðir duga ekki skal lífeyrissjóður leitast við að afla trygginga með fjárnámi hjá greiðsluskyldum aðila eða með öðrum hætti sem tryggir hagsmuni rétthafa. Í þeim tilvikum sem vænta má að trygging standi undir greiðslu vangoldins iðgjalds að hluta eða öllu leyti, skal ganga að tryggingunni ef aðrar leiðir til innheimtu skila ekki árangri. Í þeim tilvikum þegar skuldari vangoldinna iðgjalda er annar en rétthafi skal fara fram á gjaldþrotaskipti skuldara ef ástæða er til að ætla að það muni tryggja hagsmuni rétthafa. Loks er mælt fyrir um eftirlit RSK með innheimtu lífeyrissjóðanna á vangoldnum iðgjöldum. Samkvæmt reglugerðinni skal ríkisskattstjóri kalla eftir upplýsingum frá lífeyrissjóðum um framkvæmd innheimtu þeirra iðgjalda sem þeim ber að annast á grundvelli þeirra skráa sem ríkisskattstjóri sendir lífeyrissjóðunum um vangoldin iðgjöld vegna sjóðfélaga þeirra.