Nóvember til lukku hjá Olíusjóðnum í Noregi

Nóvember var góður mánuður fyrir Olíusjóð Noregs, alla vega í norskum krónum. Erlendar eignir sjóðsins jukust um 94 milljarða norskra króna í nóvember einum (jafnvirði hátt í 2.200 milljarða íslenskra króna) eða um 3,8%.
Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Noregs birti í gær voru eignir Olíusjóðsins 2.497 milljarðar NOK í byrjun nóvember en 2.591 milljarður NOK í lok mánaðarins.
Það fylgir sögunni að þetta þýði ekki endilega að starfsmenn sjóðsins hafi gert það gott í nóvember heldur ráði gengi norskrar krónu mestu um niðurstöðuna.

Olíusjóður Noregs var stofnaður á sínum tíma til að að ávaxta tekjur norska ríkisins af oliuvinnslu til framtíðarbrúks fyrir komandi kynslóðir þar í landi. Hann er einn stærsti og áhrifamesti fjárfestingasjóður veraldar og hefur meðal annars sett sér siðferðilega mælikvarða í fjárfestingum sem ýmsir aðrir fjárfestar, stórir og smáir, horfa til i starfsemi sinni.

Afkoma Olíusjóðsins á árinu 2008 vakti mikla athygli þegar ársuppgjör hans var birt í byrjun mars 2009. Þá kom í ljós að fjórðungur sjóðsins hafði gufað upp, jafnvirði um 10.000 milljarða íslenskra króna. Sjóðurinn tapaði einkum á verðfalli hlutabréfa á þriðja og fjórða fjórðungi ársins 2008 og rekstrarafkoman var sú versta frá stofnun hans.