Eftirlaunasjóður norska ríkisins, Olíusjóðurinn svokallaði, ætlar að selja hlutabréf sín í sautján tóbaksframleiðslu- fyrirtækjum fyrir alls 1,8 milljarða evra og lýsir því jafnframt yfir að hann muni ekki fjárfesta framvegis í tóbaksframleiðslu. Siðanefnd sjóðsins lagði þetta til við ríkisstjórn Noregs og Sigbjörn Johnsen fjármálaráðherra fékk afdráttarlausan stuðning í Stórþinginu við ákvörðun sína.
Siðareglur Olíusjóðsins norska og framkvæmd þeirra hafa jafnan víðtæk áhrif í fjármálaheiminum, enda er sjóðurinn umsvifamikill alþjóðlegur fjárfestir og áhrifamikill eftir því. Mörg dæmi eru um að aðrir öflugir fjárfestar fylgi í kjölfar Olíusjóðsins þegar hann setur sér ný siðferðisviðmið í fjárfestingum eða skerpir fyrri viðmiðungarreglur þar að lútandi. Olíusjóðurinn fjárfestir til dæmis ekki í félögum sem tengjast framleiðslu á klasavopnum, kjarnorkuvopnum eða jarðsprengjum. Sjóðurinn kemur heldur ekki nálægt fyrirtækjum og félögum sem hann telur brjóta gegn mannréttindum eða valda umhverfisskaða með starfsemi sinni. Og nú eru sem sagt eftirtalin sautján tóbaksfyrirtæki komin líka á svartan lista Olíusjóðsins yfir fjárfestingarkosti:
Alliance One International Inc., Altria Group Inc., British American Tobacco BHD, British American Tobacco Plc., Gudang Garam tbk pt., Imperial Tobacco Group Plc., ITC Ltd., Japan Tobacco Inc., KT&G Corp, Lorillard Inc., Philip Morris International Inc., Philip Morris Cr AS., Reynolds American Inc., Souza Cruz SA, Swedish Match AB, Universal Corp VA og Vector Group Ltd.
Fimmti hver Norðmaður reykir að því er heilbrigðisyfirvöld Noregs telja. Norðmenn voru meðal fyrstu þjóða til að banna reykingar í opinberum byggingum.
Heimildir: heimasíða fjármálaráðuneytis Noregs