Norska fjármálaráðuneytið sætir harkalegri gagnrýni í Noregi í kjölfar skýrslu frá ríkisendurskoðun ríkisins til Stórþingsins þar sem hinn voldugi lífeyrissjóður Norðmanna, Olíusjóðurinn, kemur við sögu. Fram kemur að eitt ónefnt, erlent fyrirtæki hafi á árinu 2009 fengið greiddar 500 milljónir norskra króna, jafnvirði um 9,5 milljarða íslenskra króna, fyrir árangurstengda umsýslu við fjárfestingar á vegum Olíusjóðsins .
Það fylgir sögunni að samningurinn við umrætt fjármálafyrirtæki hafi verið endurskoðaður í fyrra og við endurskoðunina lækkuðu umsýslu- og bónusgreiðslurnar niður í „aðeins“ 500 milljónir NOK en hefðu ella orðið 900 milljónir NOK fyrir árið 2009. Fjármálaráðuneytið neitar staðfastlega að upplýsa hvaða fyrirtæki um sé að ræða en viðskiptablaðamenn Dagsavisen segjast hafa nægilegar traustar heimildir til að fullyrða að það sé Pheim Asset Management í Singapúr. Ráðuneytið hvorki játar né neitar og norski seðlabankinn vill heldur ekkert upplýsa um hvaða fyrirtæki hafi unnið sér inn þessar tekjur fyrir að þjóna Olíusjóðnum.
Athygli vekur hve harðorður ríkisendurskoðandi Noregs, Jörgen Kosmo (fyrrum varnarmálaráðherra), var á fréttamannafundi um málið. Hann notaði meðal annars alþýðlegt orðfæri úr Norður-Noregi og sagði greiðslurnar „helt borti staur og vegger“, sem myndi jafngilda því að ríkisendurskoðandi á Íslandi segði að einhverjar tilteknar greiðslur í opinberum rekstri hér væru „gjörsamlega út úr kú“. Kosmo sagði að greiðslurnar væru gagnrýni verðar hvort sem menn litu til upphæðarinnar í krónum talið eða sem hlutfalls af þeim fjármunum sem sýslað var með.
Formaður eftirlits- og endurskoðunarnefndar Stórþingsins, Per-Kristian Foss, hefur heldur ekki farið þögull með veggjum. Hann skammar bæði fyrrverandi og núverandi fjármálaráðherra fyrir að hafa ekki lagt Olíusjóðnum til ákveðnar starfsreglur til að fara eftir í samskiptum við erlend umsýslufyrirtæki.
Norska fjármálaráðuneytið svarar gagnrýninni nánast fullum hálsi og segir að það sé einfaldlega rangt hjá ríkisendurskoðandanum að Olíusjóðurinn og eftirlaunafólk framtíðarinnar skaðist af háum umsýslu- og bónusgreiðslum. Reglan sé sú að þegar þeir sem annist fjárfestingar og umsýslu fjármuna Olíusjóðsins hagnist mikið þá hagnist sjóðurinn sjálfur enn meira. Starfsemin beinlínis borgi sig, þvert á það sem ríkisendurskoðandinn haldi fram. Ráðuneytisstjórinn, Hilde Singaas, segir að samningurinn við hið ónefnda erlenda fyrirtæki sé ekki á nokkurn hátt sérstakur og bónusgreiðslurnar séu hvorki háar í sjálfu sér né hlutfallslega hærri en venjulegt sé í þessum hluta fjármálageirans. Ástæðan fyrir háum greiðslum í fyrra hafi einfaldlega verið sú að þetta fyrirtæki hafi náð „einstaklega góðum árangri“ í fjármálaumsýslu sinni.
Gagnrýnisraddirnar eru síður en svo þagnaðar og nú hefur verið upplýst að Olíusjóðurinn hafi greitt erlendum fyrirtækjum alls um 5 milljarða NOK fyrir árangurstengda umsýslu frá árinu 2005 eða jafnvirði yfir 90 milljarða íslenskra króna. Háværustu gagnrýnendur benda á að afkoma sjóðsins hafi bæði verið upp og niður og ekki getið talist góður búskapur að „borga útlendum fyrirtækjum fyrir að tapa peningum Olíusjóðsins, “ eins og Morten Josefsson, hjá norska viðskiptaháskólanum orðar það.
Stuðst við Aftenposten og Dagsavisen