Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu: Ekki heimilt að svipta sjómann örorkulífeyrisréttindum.

Ekki  var heimilt að svipta fyrrverandi sjómann, örorkulífeyrisréttindum án þess að bætur kæmu fyrir. Þetta var niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í dómi sem birtur var í gær. Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu er þó ekki bindandi að íslenskum rétti að sögn dómsmálaráðherra.

Sjóðfélaginn höfðaði mál og krafðist þess að réttur sinn til óskerts örorkulífeyris yrði viðurkenndur. Voru lífeyrissjóðurinn og íslenska ríkið sýknuð af kröfum hans bæði í héraðsdómi og hæstarétti. Málið var sent til Mannréttindadómstóls Evrópu vorið 2000 og hafa sjóðfélaganum nú verið dæmdar skaða- og miskabætur auk málskostnaðar eða alls tæplega 8,5 milljónir króna.

Forsaga málsins er að sjóðfélaginn slasaðist við störf sín um borð í togara 1978. Eftir slysið var hann metinn með 100% örorku til fyrri starfa. Fékk hann lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði sjómanna í samræmi við gildandi lög og reglur sjóðsins. Síðar var lögum og reglugerð sjóðsins breytt, sem þýddi að bætunar skertust.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að viðbrögð við dóminum verði í samræmi við þær reglur, sem um slík mál gilda á grundvelli aðildar Íslands að Evrópuráðinu. "Hafa verður í huga, að í 2. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu segir, að úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi að íslenskum rétti."