Viðskipti með erlend verðbréf útgefin erlendis námu alls 14.476 m.kr. fyrstu 6 mánuði þessa árs miðað við kaup að fjárhæð 6.781 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.
Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að nettókaup erlendra verðbréfa voru samtals 2.416 m.kr. í júní samanborið við nettósölu fyrir um 978 m.kr. í sama mánuði árið 2002.
Þróun einstakra undirliða í júní var eftirfarandi:
· Nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum námu 1.952 m.kr. en nettó sala í sama mánuði árið 2002 nam um 854 m.kr.
· Nettósala á erlendum hlutabréfum nam 955 m.kr. en nettósala í sama mánuði árið 2002 nam 138 m.kr.
· Nettókaup skuldabréfa námu 1.419 m.kr en nettó sala nam 2 m.kr. í sama mánuði árið 2002.
Nettókaup fyrstu sex mánuði ársins 2003 námu 14.476 m.kr. samanborið við 6.781 m.kr. á sama tímabili árið 2002 og samanborið við 5.421 m. kr. á sama tímabili árið 2001. Kaupin eru þó mun minni fyrstu sex mánuði ársins en þau voru árin 1999 (16.264 m.kr.) og 2000 (26.837 m.kr.).
Nettókaupin hafa ávallt verið jákvæð það sem af er árinu 2003 sem er sambærileg þróun og árið 2000. Hins vegar voru nettókaupin tvisvar sinum neikvæð fyrstu sex mánuði ársins 2002 og einu sinni fyrstu sex mánuði ársins 2001.