Nefndir um réttindakerfi og örorkulífeyri.

Á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, s.l. þriðjudag, kom fram að Landssamtök lífeyrissjóða hafa í hyggju að skipa nefnd til að fjalla um ólík réttindakerfi lífeyrissjóðanna. Þá hafa Landssamtök lífeyrissjóða skipað starfshóp til að fjalla um örorkulífeyrismál með hliðsjón af  mismunandi örorkulífeyrisbyrði sjóðanna

Í ræðu þáverandi formanns LL, Þóris Hermannssonar, voru þessi mál reifuð nokkuð, þar sem m.a. þetta kom fram:

"Neikvæð ávöxtun og einnig auknar skuldbindingar sjóðanna vegna áætlana um lengri lífaldur sjóðfélaga veldur því að tryggingafræðileg staða flestra þeirra hefur versnað mikið. Starfsmenn og stjórnendur sjóðanna eru nú því í mjög mörgum tilfella að leita hvers kyns leiða sem rétt geti halla á skuldbindingum þeirra.

Stjórn LL hefur nýlega samþykkt að skipa starfshóp til að skoða kosti og galla ólíkra réttindakerfa og hvort hægt væri að vinna að breytingum  án þess að sjóðfélagar bæru skarðan hlut frá borði.   Mál þetta er ekkert auðvelt í umfjöllun og ljóst að sjónarmið manna eru töluvert misvísandi, þegar um það er fjallað. Ég tel hinsvegar mjög brýnt að nýskipaður starfshópur LL vinni ítarlega í þessu máli. Það eru margir sem bíða eftir niðurstöðu hans.

 Annað, ekki síður stórmál, er hve verulega mismikil örorkubyrði sjóðanna er sem hlutfall af heildarlífeyri þeirra.  

Þegar 54 lífeyrissjóðir eru reiknaðir út kemur í ljós að meðalbyrði örorkulífeyris hjá þeim er um 16%, en ef skoðaðir eru einstakir sjóðir kemur í ljós að fimm þeirra eru með örorkubyrði á bilinu frá 40 – 45% og sjö sjóðir eru á bilinu 30 – 40%. Það er alveg ljóst að staða þessara sjóða verður jafnan verulega lakari verði þetta stóra vandamál ekki leyst með sértækum aðgerðum.

Ég tel mjög mikilvægt að mál þetta verði skoðað ítarlega. Ljóst er að vanmat er víða hjá tryggingafræðingum varðandi mat á örorkubyrði lífeyrissjóðanna en almennt er stuðst við danskar örorkulíkur með allt að 30% lækkun. LL hefur óskað eftir því við Félag ísl. tryggingastærðfræðinga að unninn verði upp íslenskur örorkumatsstaðall, en bið hefur verið á því að það sé gert, m.a. vegna þess að erfitt hefur reynst að vinna slíkar upplýsingar. Varðandi örorkulífeyrismálin koma margar leiðir til skoðunar, þ.á.m. að flytja örorkulífeyrinn alfarið til almannatrygginga, stofna sérstaka tryggingareiningu lífeyrissjóðanna, en það kostar lagabreytingar og er flókið mál, eða hækka iðgjöld hjá þeim sjóðum, sem hafa óvenjulega háa örorkulífeyrisbyrði, en það verður væntanlega einungis ákveðið með kjarasamningum. "