Nauðsynlegt að leiðrétta furðulegar staðhæfingar um lífeyrissjóðina.

"Að undanförnu hefur nokkur umræða orðið um slaka ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna á árinu 2007. Þá hafa komið fram furðulegar staðhæfingar um hlutfall milli innstreymis fjár í lífeyrissjóðina, þ.e. iðgjöld og fjármagnstekjur þeirra annars vegar og lífeyrisgreiðslna þeirra hins vegar. Þá hefur sú skoðun fengið góðan hljómgrunn víða að lífeyrissjóðir eigi að víkka út starfssvið sitt og standa að byggingum heimila fyrir aldraðra m.a. vegna þess hversu “peningabólgnir” þeir eru" segir  Bjarni Þórðarson, tryggingafræðingur.

Nú virðist ljóst að raunávöxtun almennu lífeyrissjóðanna á síðasta ári er miklum mun lakari en hún var árið 2006. Hvaða áhrif kann það að hafa? 

"Já, eftir fjögur frábær ár hvað ávöxtun hjá lífeyrissjóðum varðar hefur þetta snúizt við. Hins vegar má ekki líta til einstakra ára heldur verðum við að líta til lengri tímabila. Meðalávöxtun síðustu 5 ára er oft notuð sem mælikvarði og mér sýnist að meðalávöxtun árannar 2003-2007 sé ívið hærri en áranna 2002-2006 þegar hún var um 8,6%. Þegar litið er til enn lengri tíma má segja að árangur íslenzka lífeyriskerfisins hafi verið einstakur. Eftir margra ára neikvæða raunávöxtun sem gekk mjög nærri fjárhag almennu sjóðanna varð mikill viðsnúningur á 9. áratug síðustu aldar sem gerbreytti þessari stöðu og undanfarin ár hafa ýmsir sjóðir náð því að auka réttindi sinna sjóðfélaga umtalsvert." 

Hvernig stendur íslenska lífeyrissjóðakerfið í samanburði við kerfi annarra vestrænna þjóða? 

"Það er að mínu mati ekkert áhorfsmál að staða þess er mjög sterk og fáar þjóðir, ef þá nokkur, geta státað af jafn sterku kerfi. Það er rétt í þessu samhengi að greina milli almennra lífeyrissjóða sem njóta ekki ábyrgðar einhvers aðila og svo hinna sem njóta þá ábyrgðar ríkisins eða sveitarfélaga, þ.e. almennra skattgreiðenda."  

En nú sýnist ýmsum sem tekjur þeirra séu svo langt umfram lífeyrisgreiðslur þeirra að þeir gætu hæglega bætt lífeyri sinna lífeyrisþega verulega eða jafnvel tekið að sér önnur verkefni? 

"Almennu sjóðirnir byggja alfarið á sjóðsöfnun og verða því að lúta mjög ströngu eftirliti. Sjóðsöfnunin felur í sér að þeir verða á hverjum tíma að sýna fram á að þeir geti staðið við þau lífeyrisloforð sem þeir hafa lofað öllum sínum sjóðfélögum vegna þeirra iðgjalda sem þeir hafa greitt til þeirra. Það má segja að líta verður á hverja kynslóð, já jafnvel hvern aldursárgang sem sérstaka deild sem verður að standa undir sínum lífeyri þegar þar að kemur. Þeir sem í dag eru á þrítugsaldri t.d. verða að hafa tryggingu fyrir því að þeirra fjármunum sé ekki varið til þess að auka lífeyri þeirra sem nú eru á áttræðisaldri.

Þetta er algjört grundvallaratriði varðandi starfrækslu íslenzka lífeyrissjóðakerfisins og um það verður að standa vörð. Íslenzka almannatryggingakerfið byggir hins vegar á gegnumstreymiskerfi (og hið sama má segja um sjóðina með ábyrgð opinberra aðila að mestum hluta) sem felur í sér að skattgreiðendur í dag eru að greiða lífeyri þeirra sem fjármögnuðu lífeyri fyrri kynslóða. Vandinn er bara sá að lífeyrisþegunum fjölgar hlutfallslega meir en skattgreiðendunum. Nú  eru 2 eldri en 64 ára á móti hverjum 10 á aldrinum 20-64 ára en samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða þeir um 4 um miðja öldina. Að óbreyttum lífeyrisfjárhæðum almannatrygginga mun sá hluti skattbyrðarinnar sem ætlað er að standa undir þessum greiðslum tvöfaldast.  Sjóðsöfnunarkerfi almennu lífeyrissjóðanna byggist á því þeir geti staðið við loforð sín án þess að grípa til þess að skattleggja unga fólkið í sjóðunum til hagsbóta fyrir hina eldri." 

En hvað með lengingu meðalævinnar? Hefur hún ekki áhrif á fjárhag sjóðanna? 

"Það er merkilegt í þessu sambandi að hagsmunir sjóðfélaganna annars vegar og sjóðanna hins vegar eru öndverðir eða þannig séð og hið sama gildir raunar um vaxtastigið. Sjóðfélagarnir fagna því að eiga í vændum lengri ævidaga en fyrri kynslóðir  en hins vegar leiðir það til þess að lækka verður lífeyrisgreiðslurnar þar sem þær dreifast á lengra skeið.

Sú lenging meðalævinnar sem átt hefur sér stað á síðasta 15 ára tímabili hefur leitt til um 10% skerðingar lífeyrisréttinda eða öllu heldur er rétt að segja að réttindin hefðu getað verið þeim mun hærri ef þessi lenging hefði ekki komið til. Hin háa ávöxtun hefur hins vegar leitt til þess að sjóðirnir gátu aukið réttindin um leið og skuldbindingar þeirra jukust vegna lengar meðalævinnar."

 Já, en má ekki búast við að ávöxtunin verði svo góð í framtíðinni að það megi hækka þessi lífeyrisloforð umtalsvert? 

"Þrátt fyrir einstakan ávöxtunarárangur síðustu tveggja áratuga er alls ekki vitað hvernig mál munu þróast næstu áratugi. Þegar skuldbindingar sjóðanna eru metnar sem og þegar réttindatöflur þeirra eru reiknaðar ber þeim að miða við að raunávöxtun verði 3,5% til framtíðar. Reynist hins vegar ávöxtunin meiri en þessu nemur er umframávöxtuninni deilt út til sjóðfélaganna í formi hækkunnar lífeyrisréttinda svo fremi sem aðrar forsendur standist. Á sama hátt getur sú staða komið upp að sjóðir verði að skerða þegar áunnin réttindi vegna slakrar ávöxtunar og/eða óhagstæðrar þróunar annarra grunnforsendna.

Fyrir nokkrum árum sömdu aðilar vinnumarkaðarins um hækkun iðgjalds til lífeyrissjóðanna í ljósi þeirrar lengingar meðalævinnar sem orðin var svo og aukinnar örorkutíðni. Þetta er ein leið til að bregðast við slíkum breytingum en einnig er hægt að hugsa sér hækkun lífeyrisaldurs og draga þannig úr lengingu greiðslutíma ellilífeyris. Hins vegar hafa væntingar ýmissa staðið til þess að hefja töku lífeyris fyrr. Til þess að það sé mögulegt verða viðkomandi einfaldlega að spara meira t.d. í séreignasjóðum."