Nálægt 40% leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað.

Í könnun PriceWaterhouseCoopers í janúar 2001 sögðust 37% fólks á aldrinum 18-75 ára leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað. Sérstaka athygli vekur að álíka margir segjast leggja fyrir 2% og 4% af launum.

Sparnaður hefur verið með minnsta móti hér á landi undanfarin ár. Stjórnvöld reyndu að spyrna á móti í ársbyrjun 1999 með því að aflétta tekjuskatti af 2% viðbótarframlagi til vörsluaðila lífeyrissparnaðar auk þess að heita 0,2% mótframlagi af hálfu ríkisins. Árið 1999 spöruðu rúmlega 20% launþega með þessum hætti (samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra), en það var lægra hlutfall en vonast hafði verið til. Hvatinn jókst í fyrravor þegar samið var um að atvinnurekendur á almennum markaði bættu 1% við framlag ríkisins, þannig að mótframlagið yrði alls 1,2% af launum. Um svipað leyti var ákveðið að létta tekjuskatti af allt að 4% viðbótarframlagi í lífeyrissjóð og mótframlag ríkisins aukið, þannig að þeir launþegar sem leggja 4% af launum sínum til hliðar fá 1,4% á móti. Í byrjun árs 2002 hækkar mótframlag atvinnurekenda svo um 1%. Í janúar 2001 hafði hlutfall sparenda aukist í 37% samkvæmt könnun PriceWaterhouseCoopers. Sérstaka athygli vekur að álíka margir segjast leggja fyrir 2% og 4% af launum. Lausleg athugun hjá 16 fyrirtækjum í Samtökum atvinnulífsins bendir til þess að þetta sé síst of há tala. Viðmælendum ber saman um að eftir áramótin hafi þeim fjölgað mikið sem spari á þennan hátt. Margir atvinnurekendur hafa hvatt starfsfólk sitt til að leggja meira í lífeyrissjóð og dæmi eru um að þeir hafi lagt meira á móti en þeim ber samkvæmt kjarasamningum. Bankar og verðbréfafyrirtæki hafa einnig staðið fyrir mikilli kynningu á þessum sparnaði á vinnustöðum. Hlutfall sparenda er mjög mishátt eftir fyrirtækjum skv. þessari könnun SA, hæst tæp 90%, en lægst rúm 10%. Fæstir spara í hópi þeirra sem eru ungir, staldra stutt við á vinnustað og fá lægst laun. Að meðaltali var hlutfallið 44% hjá þeim 16 fyrirtækjum sem rætt var við. Lítill vafi er á að viðbótarlífeyrisframlagið hefur eflt sparnað landsmanna, þó að það kunni að einhverju leyti að koma í stað annars langtímasparnaðar. Árangurinn er þó ekki nógu mikill, því að þjóðhagslegur sparnaður minnkaði enn á liðnu ári. Hreinn sparnaður landsmanna var innan við hálft prósent af landsframleiðslu árið 2000, en mestallan áratuginn þar á undan var hlutfallið 3-5%. Sjá nánar frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulúfsins, www.sa.is.