Nafni Verðbréfaþings breytt í Kauphöll Íslands h.f.

Eftir hluthafafundi í Verðbréfaþingi Íslands hf. og Verðbréfaskráningu Íslands hf.,sem haldinn var 6. júní s.l., var haldinn stofnfundur Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf. sem mun verða meirihlutaeigandi í félögunum tveimur og reka þau áfram sem sjálfstæðar einingar. Á hluthafafundi Verðbréfaþings var jafnframt samþykkt að breyta nafni fyrirtækisins í Kauphöll Íslands hf.

Með stofnun eignarhaldsfélagsins er stefnt að aukinni hagræðingu í rekstri félaganna og auknu samstarfi. Hluthafar í hinu nýja eignarhaldsfélagi eru sömu aðilar og voru áður hluthafar í Verðbréfaþingi Íslands hf. og Verðbréfaskráningu Íslands hf. Þórður Friðjónsson, forstjóri Verðbréfaþings, verður jafnframt framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins og Einar Sigurjónsson verður áfram framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar. Hlutur eigenda Verðbréfaþings í hinu nýja eignarhaldsfélagi er 69% og hlutur eigenda Verðbréfaskráningar er 31%. Stjórnarmenn verða níu og jafn margir til vara. Sömu stjórnarmenn verða í umræddum þremur félögum, þ. e. Eignarhaldsfélaginu Verðbréfaþing, Kauphöllinni og Verðbréfaskráningunni. Hluthafahópar hins nýja félags, fjöldi stjórnarmanna og skipting eignarhalds eru eftirfarandi: Þingaðilar og reiknistofnanir - 4 fulltrúar, 37,711%. Eignarhaldsfélag hlutafélaga ehf. - 2 fulltrúar, 24,443%. Eignarhaldsfélög lífeyrissjóða - 1 fulltrúi, 13,403%. Samtök fjárfesta - 1 fulltrúi, 8,970%. Seðlabanki Íslands - 1 fulltrúi, 11,040%. Ríkissjóður – Engan fulltrúa, 4,433%. Hömlur eru á meðferð hlutafjár sem skulu haldast til loka ársins 2004. Í því felst að ekki skuli raska jafnvægi milli hluthafahópanna. Til undirbúnings þessum breytingum var þann 4.júní s.l. haldinn sameiginlegur hluthafafundur hjá Eignarhaldsfélagi lífeyrissjóða um verðbréfaþing ehf. og Eignarhaldsfélagi lífeyrissjóða um verðbréfaskráningu ehf. Samþykkt voru fyrirliggjandi gögn um stofnun sameiginlegs eignarhaldsfélags um Verðbréfaþing Íslands h.f. Á umræddum hluthafafundi var einnig samþykkt að stefna að sameiningu Eignarhaldsfélags lífeyrissjóða um verðbréfaþing ehf. og Eignarhaldsfélags lífeyrissjóða um verðbréfaskráningu ehf. og að sameiningin gæti orðið um næstu áramót. Reiknað er með að starfsemi Verðbréfaþings og Verðbréfaskráningar flytji í sameiginlegt húsnæði á haustdögum. Verðbréfaþing Íslands mun taka heitið Kauphöll Íslands hf. í notkun þann 1. júlí