Um næstkomandi áramót mun mótframlag vinnuveitenda í samtryggingasjóði lífeyrissjóða hækka úr 6% í 7% samkvæmt kjarasamningum aðildarsambanda og félaga Alþýðusambands ÍslandsÍ við Samtök atvinnulífsins.
Á sama tíma fellur niður skylda vinnuveitenda til að greiða 1% fast framlag í séreignarsjóð án framlags starfsmanns. Enn helst óbreytt 2% mótframlag atvinnurekenda í séreignarsparnað þeirra launþega sem leggja fyrir 2 eða 4%.
Um er að ræða fyrri hluta af tveimur í hækkun mótframlags vinnuveitenda í samtryggingarsjóði lífeyrissjóða samkvæmt kjarasamningum sem gerðir hafa verið. Þann 1.janúar 2007 mun mótframlagið hækka um annað prósentustig, en á sama tíma verður almennt tryggingagjald lækkað um 0,45%. Ljóst er að þessi hækkun iðgjalda kemur að sjóðunum sem launahækkun sjóðfélaga og eykur útreiknaðar framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóða með jafna réttindaávinnslu. Væntanlega þurfa flestir lífeyrissjóðir að grípa til aðhaldsaðgerða á tryggingafræðilegu mati tl að koma í veg fyrir að framtíðarskuldbindingar aukist.