Mjög slæm útkoma hjá breskum lífeyrissjóðum.

Á síðasta ári sýndu bresku fyrirtækjalífeyrissjóðirnir mjög slæman fjárfestingarárangur eða 14% neikvæða nafnávöxtun. Leita þarf allt til ársins 1974 til að finna sambærilega útkomu. Megin ástæðan er hátt hlutfall hlutabréfa í eignasöfnum sjóðanna. 

Fram á síðustu ár hafa bresku lífeyrissjóðirnir aðallega fjárfest í hlutabréfum og hjá mörgum sjóðum er hlutfall hlutabréfa allt að 80% af heildareigninni. Þetta háa hlutfall hlutabréfa í eignasöfnum breskra lífeyrissjóða er meira segja orðið hærra en hjá bresku líftryggingarfélögunum, sem hafa á undanförnum misserum verið að minnka vægi hlutabréfa í eignum sínum og snúið sér frekar að áhættuminni fjárfestingum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum WM er þó talið að meðal hlutarfjáreign breskra lífeyrissjóða vigti nú um 65%   af heildareignum, enda hafi markaðsverðmæti hlutabréfanna fallið umtalsvert síðustu þrjú árin. 

 

Ávöxtun breskra hlutabréfa var neikvæð á árinu 2002 um 22,5%, sem er í samræmi við lækkun FTSE-vísitölunnar í fyrra. Lífeyrissjóðir með hærra hlutfall skuldabréfa í eignasöfnum sínum hefur farnast betur, m.a. vegna lægri verðbólgu og lítilla breytinga á vöxtum í fyrra. Nafnávöxtun skuldabréfa 2002 var  jákvæð um 9,7%

Þrátt fyrir afar slæmt gengi breskra lífeyrissjóða í fyrra og reyndar síðustu þriggja ára, þá var samt sem áður árleg meðalávöxtun sjóðanna síðustu 10 árin  jákvæð um 7,5% .

 

Eignir bresku lífeyrissjóðanna hafa nú fallið þrjú ár í röð.  Um 11,3% árið 2002, 8,9% árið 2001 og 2000 um 1%. Í fyrsta skipti síðan mælingar hófust hafa eignir sjóðanna lækkað þrjú ár í röð. 

Sjá nánar: http://www.independent.co.uk/ og http://www.bbc.co.uk/