Mjög slæm útkoma erlendra lífeyrissjóða. - Íslensku lífeyrissjóðirnir standa sig mun betur.

Árið 2002 var þriðja árið í röð sem margir lífeyrissjóðir skiluðu neikvæðri raunávöxtun. Í mörgum löndum eru lífeyrismál í miklum ógöngum og mega lífeyrissjóðir því illa við slakri ávöxtun.

Erlendis er algengt að hlutabréf séu í kringum 60% af eignum lífeyrissjóða að meðaltali meðan hlutfallið er um 25% á Íslandi, þarf af nam erlend verðbréfaeign um 16,5% um síðustu áramót.  Af því má draga þá ályktun að íslenskir lífeyrissjóðir notist við mun aðhaldssamari fjárfestingarstefnu en víðast þekkist erlendis.

Í ljósi þessa er áhugavert að bera saman ávöxtun íslenskra sjóða saman við ávöxtun erlendra sjóða. Samkvæmt úttekt Pension and Investment var raunávöxtun í Bretlandi –26,5%, Sviss – 14,4%, Japan –22,3% og í Bandaríkjunum –29,8% reiknað í íslenskum krónum.

Samkvæmt rannsóknum WaytsonWyatt var meðalávöxtun lífeyrissjóða í heiminum neikvæð um 35% á árinu 2002. Meðalraunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hefur ekki verið birt en líklegt er að hún verði -2% til -3% á síðasta ári. 

Þessi samanburður er augljóslega mjög hagstæður íslenskum lífeyrissjóðum en ástæðu þessa mikla munar má fyrst og fremst rekja til mismunandi eignar-samsetningar sjóðanna.

Eftirfarandi tafla er úr Pensions & Investments 20. janúar s.l. Til að gera töfluna samanburðahæfa er bætt við dálki sem sýnir raunávöxtun miðað við íslenskar krónur.

   

Lönd Nafnávöxtun Verðbólga Raunávöxtun

Raunávöxtun

m.v. ísl. kr.

Bretland  - 14,0%   +2,6%   -16,6%   - 26,5%
Sviss  - 9,3%   +0,7%   - 9,9%   - 14,4%
Japan  - 9,4%   - 0,4%   - 9,0%   - 22,3%
Bandaríkin  - 8,7%  + 1,6%   - 10,3%   - 29,8%


Sjá einnig grein á heimasíðu LL eftir Marinó Örn Tryggvason "Ávöxtun lífeyrissjóða árið 2002."