Mjög góð ávöxtun Séreignalífeyrissjóðsins.

Ávöxtun Séreignalífeyrissjóðsins, sem rekinn er af Búnaðarbankanum, var mjög góð á árinu 1999 og skilaði sjóðurinn hæstu ávöxtun sambærilegra sjóða samkeppnisaðila annað árið í röð.

Í byrjun síðasta árs bauð Séreignalífeyrissjóðurinn sjóðfélögum upp á þrjár mismunandi ávöxtunarleiðir sem eru settar saman af mismunandi verðbréfasöfnum sem eru ólík varðandi fjárfestingastefnu og áhættu. Ávöxtunarleiðirnar eru sniðnar að þörfum mismunandi aldursskeiða þar sem ungt fólk getur tekið meiri áhættu en þeir sem eldri eru með von um hærri ávöxtun. Verðbréfasafn ungs fólks á eftir að ávaxtast lengi, hugsanlega í marga áratugi, og er því á vissan hátt ónæmt fyrir skammtímasveiflum á verðbréfamörkuðum. Nafnvöxtun ávöxtunarleiðanna var eftirfarandi á árinu 1999: Ávöxtunarleið 1: 16,4% Ávöxtunarleið 2: 24,3% Ávöxtunarleið 3: 33,5% Launagreiðendur sem greiða viðbótarframlög fyrir starfsmenn sína í séreignalífeyrissparnað eiga nú kost á að greiða þau í Lífeyrisauka Búnaðarbankans. Jafnframt geta launþegar eftir sem áður greitt 2% frjálst viðbótariðgjald af launum sínum skattfrjálst í Lífeyrisaukann. Í Lífeyrisaukanum er mun meira frelsi til fjárfestinga en almennt gerist í lífeyrissjóðum. Velja má bæði innlenda og erlenda hlutabréfasjóði og skipta sparnaðinum á milli þeirra í hvaða hlutföllum sem er. Í boði eru sjóðir eins og Framsækni alþjóða hlutabréfasjóðurinn og Alþjóða hlutabréfasjóðurinn en þeir skiluðu 100,1% og 54,8% ávöxtun á árinu 1999. Í byrjun þessa árs setti Séreignalífeyrissjóðurinn á laggirnar tryggingadeild sem tryggir þeim sjóðfélögum lágmarkstryggingavernd sem greiða lögbundið 10% lágmarksiðgjald í sjóðinn. Lágmarkstryggingavernd samanstendur af ellilífeyri til æviloka, örorkulífeyri og maka- og barnalífeyri. Hluti 10% lágmarksiðgjalds rennur nú í tryggingadeildina en hluti áfram í séreignadeild sjóðsins.


Úr fréttatilkynningu frá Séreignalífeyrissjóðnum.