Mjög góð ávöxtun hjá Lífeyrissjóði Norðurlands.

Samkvæmt milliuppgjöri Lífeyrissjóðs Norðurlands fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2004 var nafnávöxtun á ársgrundvelli 24,7% og raunávöxtun 18,7%.  Þessa góðu afkomu má fyrst og fremst rekja til mikilla fjárfestingartekna á tímabilinu en þær námu 3.864,3 mkr. en voru 936,0 mkr. á sama tíma í fyrra.  Skilyrði á fjármálamörkuðum hafa verið mjög hagstæð og ávöxtun verið góð á innlendum hluta- og skuldabréfum.  Hrein eign til greiðslu lífeyris í lok tímabilsins nam 36.547,1 mkr. og hafði hækkað um 4.135,8 mkr. frá ársbyrjun.