Mínus 1,81% raunávöxtun hjá Lífeyrissjóði bænda.

Ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda á síðasta ári var 2,37% sem jafngildir –1,81% hreinni raunávöxtun. Slök ávöxtun lífeyrissjóðsins endurspeglar það sem hefur verið að gerast á verðbréfamörkuðum. Helsta ástæða lægri ávöxtunar er lækkun innlendra og erlendra hlutabréfa. Hlutabréfavísitölur lækkuðu um nálægt 14% á árinu.

Samkvæmt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins skal samsetning eigna vera sem næst eftirfarandi hlutföllum: Skuldabréf með ríkisábyrgð 40%, önnur skuldabréf 25%, erlend hlutabréf 25% og innlend hlutabréf 10%. Gerð var tryggingafræðileg úttekt á sjóðnum miðað við árslok 2000. Endurmetin hrein eign sjóðsins miðað við 3,5% ávöxtun nemur í árslok 2000 12.732 millj. kr. og verðmæti framtíðariðgjalda 3.272 millj. kr. eða samtals 16.004 millj. kr. Heildarskuldbindingar nema 16.071. Sjóðinn vantar því 67 millj. kr., eða 0,4%, til að eiga fyrir heildarskuldbindingum. Áfallnar skuldbindingar nema 11.936 millj. kr. Verðmæti eigna er því 796 millj. kr., eða 6,7%, hærra en áfallnar skuldbindingar. Í árslok 1999 voru eignir umfram heildarskuldbindingar 0,3% og umfram áfallnar skuldbindingar 6,9%. Breyting er því lítil. Helstu kennitökur úr rekstri eru þessar hjá Lífeyrissjóði bænda: (Tölur innan sviga eru vegna ársins 1999). Hrein raunávöxtun árið 2000 -1,81% (9,90%) Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár 6,81% Eignir í íslenskum krónum 75,23% (80,3%) Eignir í erlendum gjaldmiðlum 24,77% (19,7%) Fjöldi virkra sjóðfélaga 4.812 (5.122) Fjöldi lífeyrisþega 3.567 (3.516) Kostnaður í hlutfalli af eignum 0,19% (0,16%) Ársfundur sjóðsins verður haldinn í B-sal á 2. hæð í Bændahöllinni þriðjudaginn 19. júní n.k