Mikilvægar reglur um útsenda starfsmenn á EES-svæðinu.

Samkvæmt samningum um EES, - Evrópska efanhagssvæðið, gilda ákveðnar reglur um lífeyrisréttindi vegna flutnings starfsmanna milli landa. Þó þessar reglur gildi fyrst og fremst um almannatryggingar geta þær líka náð til lífeyrissjóðanna. Þannig getur íslenskur starfmaður sem flytur tímabundið til útlanda haldið áfram að greiða í íslenska lífeyrissjóði.

Meginreglan er sú að einstaklingur á að vera tryggður samkvæmt almannatryggingakerfi eins lands hverju sinni. Launþegar eiga að vera tryggðir samkvæmt almannatryggingarkerfi starfslandsins óháð því hvar þeir eru búsettir. Sama reglan gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Til er þó mikilvæg undantekning frá áðurgreindri meginreglu, sem felst í því, að ef t.d. launþegi frá Íslandi er sendur af vinnuveitenda sínum til starfa í öðru EES-ríki að hámarki í 12 mánuði, heldur hann áfram að heyra undir íslenska lífeyriskerfið með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Sá sem fellur undir þessar reglu um útsenda starfsmenn þarf að hafa meðferðis vottorð E-101, sem Alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins gefur út að undangengnu mati. Með sama hætti geta erlendir ríkisborgarar innan EES komið með slíkt vottorð hingað til lands og þá þarf að skoða það í hverju tilviki fyrir sig, hvort þeir séu þar með undanþegnir að greiða iðgjöld í íslenska lífeyrissjóði. Ráðlegt er að hafa samband við Alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins eða Landssamtök lífeyrissjóða, ef slík tilvik koma upp.