Mikill viðsnúningur í viðskiptum með erlend verðbréf á síðasta ári.

Árið 2001 voru nettókaup alls 3.715 m.kr. samanborið við 40.536 m.kr. árið 2000. Mikill viðsnúningur hefur orðið í viðskiptum innlendra aðila með erlend verðbréf sem sést einna best á því að nettókaupin árið 2000 voru þau mestu frá upphafi en 12 mánuðum síðar er staðan gjörbreytt.

Leita þarf aftur til áranna 1996 þegar nettókaup voru 2.865 m.kr., og 1995, með 3.489 m.kr. nettókaup, til að finna sambærilegar tölur. Samanburður milli ára leiðir í ljós að viðskipti með hlutdeildarskírteini í erlendum verðbréfasjóðum voru jákvæð allt árið 2000 en árið 2001 voru slík viðskipti neikvæð í sjö skipti og samfellt frá ágústmánuði. Viðskipti með hlutabréf voru aðeins einu sinni neikvæð árið 2000, í des., en tvisvar sinnum neikvæð árið 2001, í maí og des. Nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum voru jákvæð um 35.197 m.kr. árið 2000 en neikvæð um 1.925 m.kr. árið 2001. Til samanburðar má geta þess að nettókaup á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum voru jákvæð um 9.948 m.kr. árið 2000 og einnig jákvæð um 5.738 m.kr. árið 2001. Sala erlendra skuldabréfa umfram kaup nam 60 m.kr. árið 2001, samanborið við sölu upp á 3.427 m.kr. árið 2000. Sala annarra verðbréfa sem gefin eru út erlendis nam 38 m.kr. árið 2001, samanborið við sölu upp á 30 m.kr. árið 2000. m.kr. Frá júnímánuði 2001 hefur fjármagn leitað í hlutabréf erlendra fyrirtækja fremur en í hlutdeildarskírteini í erlendum verðbréfasjóðum. Kemur sú niðurstaða eigi á óvart enda voru mörg kauptækifæri í erlendum hlutabréfum á síðari helming ársins. Árið 2001 var fjárfestum óhagstætt og lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur í heiminum og þannig lækkaði t.d. heimsvísitala hlutabréfa Morgan Stanley um 17,8% og Evrópuvísitala hlutabréfa Morgan Stanley um 21,2%. Vísitala gengisskráningarvogar hækkaði á móti um 17,35%. Markaðsvirði erlendra verðbréfa lækkaði því mikið í erlendri mynt en minna í krónum talið árið 2001.


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands