Mikill samdráttur í viðskiptum með erlend verðbréf.

Samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands nam sala erlendra verðbréfa umfram kaup um 342 m. kr í júnímánuði. Neikvæð staða á viðskiptum með erlend verðbréf var síðast í desembermánuði 2000 og þar áður í nóvember 1996.

Til samanburðar má geta þess að nettókaup á erlendum verðbréfum í júnímánuði í fyrra námu um 3,4 ma. kr. Verulega dregur úr viðskiptum með hlutabréf, en velta þeirra viðskipta nam um 5,4 ma.kr í júní sem er mun minna en undanfarna mánuði og samanborið við um 9,2 ma.kr. í júnímánuði 2000. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í erlendum verðbréfasjóðum í júnímánuði námu um 4,2 ma. kr. samanborið við viðskipti fyrir um 3,8 ma. kr. í júnímánuði 2000. Nettókaup fyrstu sex mánuði ársins 2001 eru mun lægri en en í fyrra eða samtals 5.457 m.kr. og fara þarf aftur til ársins 1997 til að finna sambærileg nettókaup á sama tímabili. Nettókaup fyrstu sex mánuði í fyrra námu t.d. 26.173 m. kr. og 16.264 m.kr. fyrstu sex mánuði ársins 1999. Því er um verulegan samdrátt að ræða í viðskiptum við útlönd með erlend verðbréf.


Heimild: Seðlabanki Íslands, tölfræðisvið.