Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að nettókaup erlendra verðbréfa voru samtals 10.978 m.kr. í mars samanborið við nettókaup fyrir um 4.902 m.kr. í sama mánuði árið 2003. Á fyrsta ársfjórðungi námu kaupin alls tæplega 25 miljörðum króna.
Nettókaupin í mars að fjárhæð 10.978 m.kr. eru þau mestu síðan kerfisbundið var byrjað að safna saman upplýsingum um erlend verðbréfakaup árið 1994. Önnur mestu nettókaupin voru í sl. febrúarmánuði en þá námu kaupin um 7.830 m.kr. og þriðju mestu kaupin voru í marsmánuði árið 2000 eða um 6.755 m.kr.
Þegar skoðuð eru erlend verðbréfaviðskipti á fyrsta fjórðungi sl. ára:
Mikil aukning í erlendum verðbréfakaupum það sem af er árinu 2004 á sér ýmsar skýringar. Lágt gengi dollarans og hagstætt verð á bandarískum hlutabréfum hefur án efa sín áhrif.
Að mati Seðlabankans má gera ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir standi á bak við stóran hluta af erlendu verðbréfakaupunum. Til fróðleiks má geta þess að erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna nam í lok febrúar 2004 um 170,1 ma.kr. eða um 20,3% af hreinni eign lífeyrissjóðanna samanborið við um 156,4 ma.kr. eða um 19,5% af hreinni eign lífeyrissjóðanna í árslok 2003. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 segir m.a. að lífeyrissjóður skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign sjóðsins. Af framgreindu má ráða að sumir sjóðir eru nokkuð langt frá 50% markinu.
Síðast en ekki síst má nefna að mikið fjármagn virðist liggja á lausu í bankakerfinu sem ávaxta þarf til skemmri eða lengri tíma. Sem dæmi um þetta má nefna að skv. reikningum innlánsstofnana var reikningsstaðan undir liðnum erlend útlán og markaðsverðbréf fyrir hlutabréf um 16,5 ma.kr. í árslok 2003 en var komin upp í 31 ma.kr. í lok mars 2004.