Staða innlendra hlutabréfa í eigu lífeyrissjóðanna hækkaði meira á árinu 2004 en næstu fjögur árin þar á undan. Ávöxtun þeirra á árinu var góð, enda var mikil hækkun á innlendum hlutabréfavísitölum á árinu, úrvalsvísitalan hækkaði um 59%. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabanka Íslands fyrir árið 2004.
Í ársskýrslu Seðlabankans fyrir árið 2004 kemur einnig fram að rúmlega fimmtungur af hreinni eign lífeyrissjóðanna í árslok 2004 voru erlend verðbréf. Einungis þrír sjóðir eru með yfir 30% af hreinni eign sinni í erlendum verðbréfum svo að ljóst er að enn eru þeir allir töluvert frá takmörkunum sem þeim eru sett í lögum, en þar er kveðið svo á að þeir skuli takmarka áhættu sína í erlendum gjaldmiðlum við helming af hreinni eign.
Samkvæmt bráðabirgðatölum í árslok 2004 var aukning hreinnar eignar lífeyrissjóðanna ívið minni á árinu 2004 en á árinu 2003 og stafi það einkum af lakari ávöxtun erlendra verðbréfa. Öll hækkun á stöðu þeirra á árinu stafi af nettókaupum, því að samkvæmt skýrslum stærstu lífeyrissjóðanna virðist endurmatið hafa verið mjög lítið enda hækkuðu helstu erlendu hlutabréfavísitölurnar mun minna en árið 2003.
Sjóðfélagalánin drógust lítillega saman á árinu, en það hefur aðeins gerst einu sinni fyrr, á árinu 1997. Orsakir þessa samdráttar aðmati bankans voru hin nýju íbúðalán sem bankarnir hófu að veita viðskiptavinum sínum í lok ágúst. Lántakendur urðu þá að greiða upp lán sín hjá lífeyrissjóðum, hver sem kjör þeirra voru, ef þeir vildu nýta sér að fullu það veðhlutfall sem fáanlegt var hjá bönkunum. Veðhlutfall lífeyrissjóða er lægra en hámarksveðhlutfall bankanna, eða að hámarki 65% samkvæmt lögum. Fyrstu átta mánuði ársins var aukning sjóðfélagalánanna svipuð því sem verið hafði ári fyrr, en eftir það tók samdráttur við.
Staða innlendra hlutabréfa í eigu lífeyrissjóðanna hækkaði meira á árinu 2004 en næstu fjögur árin þar á undan. Ávöxtun þeirra á árinu var góð, enda var mikil hækkun á innlendum hlutabréfavísitölum á árinu, úrvalsvísitalan hækkaði um 59%.