Metávöxtun hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum árið 2006 -bónusgreiðslur til sjóðfélaga annað árið í röð

Tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins skilaði 19,2% ávöxtun árið 2006 sem er hæsta ávöxtun deildarinnar frá stofnun hennar. Eignir umfram áfallnar skuldbindingar voru 12,6% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 8,1%. Vegna sterkrar tryggingafræðilegrar stöðu verða greiddar bónusgreiðslur úr tryggingadeild í séreignadeild sjóðfélaga annað árið í röð. Að þessu sinni nemur heildarbónusfjárhæðin  900 milljónum króna.

Ávöxtun Frjálsa 1, sem er fjölmennasta og stærsta fjárfestingarleið sjóðsins, var 17,7%. Há ávöxtun tryggingadeildar og Frjálsa 1 skýrist fyrst og fremst af hækkun erlendra verðbréfa og veikingu krónunnar en markmið deildanna er að hafa 35% af eignum í erlendum verðbréfum. Gott gengi á verðbréfamörkuðum og virk stýring sjóðsins skiluðu sjóðfélögum í öllum fjárfestingarleiðum ávöxtun umfram það sem búast hefði mátt við m.v. fjárfestingarstefnu. Góður árangur skýrist einkum af undir- og yfirvigt einstakra verðbréfaflokka, vali á einstökum verðbréfum og árangursríkri gjaldeyrisstýringu.

 

Nafnávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins 2006

  • Tryggingadeild        19,2%
  • Frjálsi 1                     17,7%
  • Frjálsi 2                     11,1%
  • Frjálsi 3                       7,9%

 

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam í lok árs um 60 milljörðum og jókst um 14,7 milljarða á milli ára, eða um 33%. Þar af var ávöxtun ársins um 8,7 milljarðar. Iðgjöld til sjóðsins námu um 4,9 milljörðum og jukust um 10,8% á milli ára. Lífeyrisgreiðslur námu 798 milljónum kr.

 

Sjóðfélagar voru í lok árs 38.379 og fjölgaði um 5.418 á árinu.

 

Frjálsi lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1978 og var því að ljúka 28. starfsári sínu. Sjóðurinn er opinn öllum starfandi einstaklingum og hefur ávallt verið í fararbroddi þeirra sem vilja auka valfrelsi fólks í lífeyrissparnaði.

 


Fréttatilkynning frá Frjálsa lífeyrissjóðnum.