Menntunarstig öryrkja reyndist lægra og tekjur mun lægri.

Samkvæmt könnun sem gerð hefur verið um félagslegar aðstæður öryrkja á árinu 1997 reyndist menntunarstig öryrkjanna lægra og þeir höfðu í meiri mæli unnið við ófaglærð störf en gengur og gerist hjá þjóðinni. Meðaltekjur Íslendinga sem virkir eru á vinnumarkaði virðast vera nær tvöfalt hærri en meðaltekjur öryrkja.

Umtalsverðar upplýsingar eru til um heilsufar öryrkja á Íslandi, en minni um félagslegar aðstæður þeirra. Félagslegar aðstæður voru því kannaðar og er hér lýst menntunarstigi, störfum og tekjum einstaklinga sem nýlega voru metnir til örorku. Þegar könnunin var gerð var örorka ennþá metin á grundvelli heilsufarslegra, félagslegra og fjárhagslegra forsendna. Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna í hve miklum mæli félagslegar aðstæður nýskráðra öryrkja eru frábrugðnar aðstæðum þjóðarinnar almennt. Lagður var í síma fyrir listi með spurningum um félagslegar aðstæður. Í úrtaki voru allir sem fengu á árinu 1997 í fyrsta sinn örorkulífeyri, örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri. Svör öryrkjanna voru borin saman við svör við þjóðmálakönnunum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, þar sem svarendahópurinn endurspeglaði vel þjóðina eftir kyni, aldri og búsetu. Aflað var upplýsinga um meðaltekjur öryrkja og þær bornar saman við meðaltekjur vinnandi fólks. Helstu niðurstöður þessarar könnunar voru þær að menntunarstig öryrkjanna reyndist lægra og þeir höfðu í meiri mæli unnið við ófaglærð störf en gengur og gerist hjá þjóðinni. Minna var um að öryrkjarnir hefðu einungis unnið heima en þjóðin almennt. Nokkuð var um að öryrkjarnir væru enn í launaðri vinnu, einkum örorkustyrkþegar. Meðaltekjur Íslendinga sem virkir eru á vinnumarkaði virðast vera nær tvöfalt hærri en meðaltekjur öryrkja. Þar sem saman fara lægra menntunarstig og þrengri atvinnutækifæri hjá öryrkjum en hjá þjóðinni almennt, má álykta að aukin starfsendurhæfing og fjölbreyttari námstækifæri kynnu að geta bætt stöðu þeirra sem eru að detta út af vinnumarkaði vegna heilsubrests, lágs menntunarstigs og erfiðra starfa.


Sjá einnig Læknablaðið 2001 bls. 981-985.