Meirihluti landsmanna vill samræmdan lífeyrisrétt.

Ríflega 80% landsmanna eru hlynnt kröfu félaga og sambanda í Alþýðusambandinu um samræmdan lífeyrisrétt. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðusamband Íslands um ýmis atriði sem tengjast lífeyrismálum.

 

Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna betri að flestra mati
Í könnuninni voru svarendur spurðir hvort þeir teldu lífeyrisrétt opinberra starsfsmanna betri en þeirra sem vinna á almennum markaði, hvort réttur þeirra sem vinna á almennum markaði sé betri, eða hvort rétturinn sé sá sami eða sambærilegur. Þrír af hverjum fjórum sögðu að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu betri, um 10% sögðu rétt þeirra sem vinna hjá einkafyrirtækjum sé betri, en um 15% sögðu réttinn hliðstæðan.

Um 80% óánægð með lög um lífeyrisrétt þingmanna og ráðherra
Leitað var eftir viðhorfum svarenda gagnvart nýsamþykktum lögum þingmanna og æðstu ráðamanna ríkisins. Rúmlega 78% svarenda kváðust óánægð með þessi lög, rúm 12% hvorki ánægð né óánægð og rúm 9% kváðust ánægð með lögin.

Könnunin var gerð dagana 19. til 29. desember sl. Í úrtaki voru 600 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára. Svarhlutfall í könnuninni var 71,6%.