Margfalt eftirlit með lífeyrissjóðunum.

Íslensku lífeyrissjóðirnir búa við margfalt eftirlitskerfi og endurskoðun. Í lífeyrissjóðalögunum eru ströng ákvæði um endurskoðun sem varðar starfsemi sjóðanna. Þar er m.a. tekið fram að  lífeyrissjóður skuli starfrækja endurskoðunardeild eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila, sem  annast skal innra eftirlit með sjóðnum, sem vera skal  hluti af skipulagi lífeyrissjóðsins og þáttur í starfsemi hans.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að lífeyrissjóðunum beri að skipa sérstakar endurskoðunarnefndir, sem mun að mati Landssamtaka lífeyrissjóða aðeins auka skriffinnsku og kostnað við rekstur sjóðanna. Þetta kemur fram í umsögn LL til efnahags- og skattanefndar Alþingis.

Efnahags- og skattanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 13/2006 um ársreikninga. 

 

Í athugasemdum  er þess getið að frumvarpið miði að því að koma til framkvæmda hér á landi ákveðnum þáttum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/43EB.  Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra laga um endurskoðendur.

 

Meginbreytingin sem varðar lífeyrissjóði er að sjóðirnir eru taldir í hópi “eininga tengda almannahagsmunum” á ensku: “Public interest entities”. Það merkir að einstökum lífeyrissjóðum  ber skylda til að skipa sérstaka endurskoðunarnefnd, sem skal m.a. vera óháð endurskoðanda eða endurskoðendum einingarinnar, eins og segir í frumvarpinu.

 

Þó leitað sé með logandi ljósi í umrædda tilskipun Evrópuþingsins, þá er hvergi minnst á lífeyrissjóðina í tilskipunni, hvað þá að þeir séu taldir falla undir einingu tengdum almannahagsmunum.

 

Landssamtök lífeyrissjóða hafa  á tilfinningunni að stjórnvöld séu oft á tíðum “kaþólskari en páfinn”, þegar kemur að innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu.  Frumvarp þetta að skylda lífeyrissjóðina til að skipa  endurskoðunarnefndir er dæmi um slíkar oftúlkanir.

 

Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 er að finna mörg ákvæði um eftirlit og endurskoðun lífeyrissjóðanna.

 

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði lífeyrissjóðalaganna, reglugerða og reglna settar samkvæmt þeim. Þá skal Fjármálaeftirlitið sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreikninga lífeyrissjóða. Einnig setur Fjármálaeftirlitið reglur í samráði við reikningsskilaráð um ársreikninga lífeyrissjóða.

 

Í lífeyrissjóðalögunum eru ströng ákvæði um endurskoðun sem varðar starfsemi sjóðanna. Þar er m.a. tekið fram að  lífeyrissjóður skuli starfrækja endurskoðunardeild eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila, sem  annast skal innra eftirlit með sjóðnum, sem vera skal  hluti af skipulagi lífeyrissjóðsins og þáttur í starfsemi hans. Þá er sérstakt ákvæði í lögunum að Fjármálaeftirlitið skuli setja nánari reglur um verkefni endurskoðunardeildar og eftirlitsaðila lífeyrissjóða.

 

Samkvæmt framansögðu er ljóst að íslensku lífeyrissjóðirnir búa við margfalt eftirlitskerfi og endurskoðun. Það ákvæði í umrælddu frumvarpi, að til viðbótar beri lífeyrissjóðunum að skipa sérstakar endurskoðunarnefndir, er aðeins til að auka skriffinnsku og kostnað við rekstur sjóðanna og er algjörleg óþarfi og einnig  oftúlkun á umræddri tilskipun Evrópuþingsins að mati Landssamtaka lífeyrissjóða.