Málþing um starfsendurhæfingu.

Haldið verður málþing um starfsendurhæfingu 13. nóvember 2001 kl. 13 -16 á Grand Hótel Reykjavík. Starfskraftar sem fást við starfsendurhæfingu á Íslandi eru dreifðir, framboð af henni er of lítið og heildarskipulag vantar. Á málþinginu verður rætt um gildi starfsendurhæfingar og hvernig hægt væri að gera hana markvissari hér á landi.

Reynslan sýnir að þegar fólk hefur verið óvinnufært vegna sjúkdóms eða slyss, eða atvinnulaust lengur en nokkra mánuði er mun erfiðara að stuðla að því að það hefji störf að nýju en ef gripið er fljótt til aðgerða. Það að hverfa af vinnumarkaði við þessar aðstæður getur haft mjög neikvæð áhrif á líf fólks og lífsgæði, sjálfsöryggi og sjálfsbjargarviðleitni. Því er afar brýnt að hægt sé að grípa fljótt inn í þennan vítahring með starfsendurhæfingu, þannig að viðkomandi verði ekki að óþörfu öryrki fyrir lífstíð. Slíkt verður bæði einstaklingnum og samfélaginu dýrkeypt. Að málþinginu standa: Alþýðusamband Íslands Landssamtök lífeyrissjóða Samstarfsráð um endurhæfingu Samtök atvinnulífsins Tryggingastofnun ríkisins Vinnumálastofnun Nánari dagskrá verður kynnt síðar.