Íslenskir lífeyrissjóðir falla undir lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á sama tíma og ekki er vitað til þess að lífeyrissjóðir í Evrópu falli undir tilskipun Evrópusambandsins um peningaþvætti.
Íslenskir lífeyrissjóðir þurfa að tilnefna ábyrgðarmenn og setja sér leiðbeinandi reglur til að koma í veg fyrir peningaþvætti vegna áhættu sem enginn veit hver er eða hvað þættir það eru í starfsemi lífeyrissjóða hér á landi sem er öðruvísi hér en hjá lífeyrissjóðum í öðrum löndum innan EES.
Þessar upplýsingar koma fram í nýlegri umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða til Viðskiptanefndar Alþingis.
Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er orðrétt á þessa leið:
"Viðskiptanefnd Alþingis hefur með bréfi til Landssamtaka lífeyrissjóða óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, 539.mál.
Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, þá er meginmarkmið þess að leggja fram breytingar á lögunum til að koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru við íslensk lög og reglur af FATF, sem er skammstöfun fyrir alþjóðlegan framkvæmdahóp, Financial Action Task Force on Money Laundering.
Sérstök ráðgjafanefnd viðskiptaráðherra hefur unnið að þessum tillögum á breytingum á lögunum um peningaþvætti. Landssamtök lífeyrissjóða taka ekki efnislega afstöðu til þessara tillagna, enda eiga samtökin ekki aðild að viðkomandi ráðgjafanefnd.
Landssamtök lífeyrissjóða vilja hins vegar vekja athygli nefndarmanna í viðskiptanefnd Alþingis á eftirfarandi staðreynd:
Íslenskir lífeyrissjóðir falla undir lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á sama tíma og lífeyrissjóðir Evrópusambandslandanna eru undanþegnir tilskipun nr. 60/2005 um peningaþvætti.
Íslenskir lífeyrissjóðir þurfa að tilnefna ábyrgðarmenn og setja sér leiðbeinandi reglur til að koma í veg fyrir peningaþvætti vegna áhættu sem enginn veit hver er eða hvað þættir það eru í starfsemi lífeyrissjóða hér á landi sem er öðruvísi hér en hjá lífeyrissjóðum í öðrum löndum innan EES.
Ljóst er að þó lífeyrissjóðirnir falli undir lögin eru áhætta peningaþvættis hverfandi í starfsemi þeirra, enda nær tilskipunun ekki til lífeyrissjóða Evrópusambandslandanna.
Sú spurning er áleitin hvort ekki sé óeðlilegt að íslenskir lífeyrissjóðir þurfi einir lífeyrissjóða innan EES að sæta því að falla undir sérstaka löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka."