LL óskar eftir endurskoðun á samningi við TR um mat á orkutapi.

Á stjórnarfundi Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir skömmu var samþykkt að óska eftir því að endurskoðun fari fram á samningi Tryggingastofnunar ríkisins og samtaka lífeyrissjóða um framkvæmd mats á orkutapi, en samningurinn hefur gilt óbreyttur frá 7. febrúar 1996.

Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar er samningurinn orðinn rúmlega 4ra ára gamall og því þörf á því að hann fari í almenna endurskoðun, en hitt er ekki síður ástæðan að breytingar hafa orðið á örorkumatsgerð hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. reglugerð nr. 379/1999, svo og á skilgreiningu á orkutapi samv. almannatryggingalögunum. Verður síðar í LL-FRÉTTUM vikið nánar að þessum breytingum. Á fundi nú í vikunni með Sigurði Thorlacíus,tryggingayfirlækni, og Haraldi Jóhannssyni, tryggingalækni, lögðu fulltrúar LL fram ákveðnar breytingar á samningnum m.a. um nauðsyn þess að fram komi í heilsufarssögu sjóðfélaga, sem sækja um örorkulífeyri, hve langt aftur í tímann rekja má sjúkdóma þá sem orkutapi valda, svo og hvort og þá hve lengi sjúkdómar eða kvillar af líkamlegum eða geðrænum toga geta talist hafa haft áhrif á starfsorku sjóðfélaga. Ljóst er að breyta verður læknisvottorðum sjóðanna til þess að slíkar upplýsingar komi nægjanlega skýrt fram og eru þau mál nú í sérstakri athugun hjá læknadeild TR. LL mun hins vegar afla tiltekinna upplýsinga hjá lífeyrissjóðunum, m.a. hvenær meta skuli orkutap sjóðfélaga til almennra starfa.