Lífsgleði fjölgar eftirlaunafólki

Nú er það vísindalega sannað sem margan hefur grunað: létt lund lengir lífið! Fullyrðinguna á má reyndar líka orða sem svo að lífsgleði fjölgi fólki sem kemst á eftirlaunaaldur. 
Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar í Norður-Þrændalögum í Noregi, sem stóð yfir í sjö ár og tók til yfir 53.000 manns. Það bendir sem sagt flest til þess að lífsgleði og gott skap hafi jákvæð áhrif á heilsufar og félagslíf, sem stuðlar bæði að því að lengja æviskeiðið og létta fólki ævikvöldið.

Hér er ekki verið að tala um að það sjáist beinlínis utan á fólki hverjir séu léttir í lund og hverjir ekki og það er ekki svo að hláturmilda brandarafólkið falli endilega í flokk léttlyndra í könnuninni. Húmor í vísindalegum skilningi könnunarinnar snýst nefnilega um sjálfan þankaganginn og hvernig hann birtist í samskiptum við aðra.

Niðurstaðan er líka sú að hægt sé hreinlega að læra að létta lundina og þjálfa sig í faginu! Norsku sérfræðingarnir telja sig með öðrum orðum geta fullyrt að lundarfarið hafi raunveruleg áhrif á heilsufar fólks um sjötugt en þegar árin færist yfir koma aðrir þættir líkamlegrar heilsu inn í myndina og áhrif lundarfarsins fjara þá um leið smám saman út.

Heimild: forskning.no