Í lok ársins 2000 námu lífeyrisskuldbindingar ríkisins 155,8 milljörðum en áætlað er að þær hafi numið rúmum 177 milljörðum um síðustu áramót. Frá þessari upphæð dragast greiðslur sem inntar hafa verið af hendi umfram lögbundið iðgjald, en þær nema tæplega 34 milljörðum á síðustu þremur árum. Heildarskuldbindingarnar um síðustu áramót námu því 143,1 milljarði.
Ríkissjóður ber ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, Lífeyrissjóðs alþingismanna og Lífeyrissjóðs ráðherra. A-deild LSR og séreignardeild LSR eiga að standa undir sér sjálfar, en ríkissjóður hefur hins vegar ábyrgst að hækka iðgjaldagreiðslur í sjóðina ef eignir duga ekki fyrir lífeyrisskuldbindingum. Þessar upplýsingar komu fram á Alþingi í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Áætlaðar lífeyrisskuldbindingar ríkisins jukust á síðasta ári um 21,3 milljarða eða um 14%. Skuldbindingarnar hafa að jafnaði aukist um 13-14% á ári síðustu þrjú ár. Árið 1998 hækkuðu skuldbindingarnar um 33%. Í svari fjármálaráðherra kemur fram að af þeim 30,5 milljörðum sem ríkissjóður hefur greitt í LSR og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga á síðustu þremur árum hafa 5,7 milljarðar farið í kaup á ríkisskuldabréfum og 10,5 milljarðar í önnur skuldabréf. 4,1 milljarður fór í kaup á innlendum hlutabréfum og 10,2 milljarðar í erlend hlutabréf. Tæplega helmingur upphæðarinnar hefur því farið í kaup á hlutabréfum. Á síðasta ári voru gerðir gjaldmiðlaskiptasamningar til að draga úr gjaldmiðlaáhættu og koma í veg fyrir að erlendar fjárfestingar LSR hefðu áhrif á gengi íslensku krónunnar. Alls voru gerðir samningar fyrir 3,5 milljarða króna í þessu skyni. Fram kemur í svarinu að hrein raunávöxtun B-deildar LSR á fyrstu sex mánuðum síðasta árs var 2,6%, en ávöxtunin var 2,17% árið 2000. Samkvæmt lögum um sjóði Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) endurgreiða launagreiðendur sjóðunum þann hluta lífeyris sem er hækkun á áður úrskurðuðum lífeyri. Ávöxtun sjóðanna hefur engin áhrif á endurgreiðslur launagreiðenda til sjóðanna vegna lífeyrishækkana. Hækkanir á dagvinnu launum hækka greiðslur til lífeyrisþega samkvæmt launaviðmiði þeirra, þessar hækkanir eru þannig endurgreiddar til sjóðanna frá launagreiðendum. Þetta gildir eingöngu um virka lífeyrisþega á hverjum tíma.Kröfur á launagreiðendur vegna lífeyrishækkana eru ekki til staðar hjá A- og S-deild LSR. Ávöxtun annarra deilda en S-deildar LSR hefur engin áhrif á lífeyrisgreiðslur, en þær breytast í samræmi við hækkanir á dagvinnulaunum. Lífeyrisgreiðslur A-deildar LSR hækka í samræmi við vísitölu neysluverðs. Inneign sjóðfélaga hjá S-deild LSR breytist í takt við innborganir og ávöxtun en við tiltekinn aldur er inneignin laus til útborgunar samkvæmt fyrirkomulagi sem sjóðfélaginn ákveður. Í kjölfar þess að ríkissjóður hóf að greiða aukalega til B-deildar LSR og LH árið 1999 var undirritaður samningur milli sjóðanna og ríkissjóðs um hvernig farið skyldi með þessa fjármuni hjá sjóðunum. Þær fjárhæðir sem ríkissjóður hefur greitt samkvæmt samkomulaginu eru uppfærðar árlega í samræmi við vísitölu neysluverðs og hreina raunávöxtun sjóðanna. Innborganir ríkissjóðs mynda inneign hjá sjóðunum og kemur hún til frádráttar á skuld bindingum ríkissjóðs. Inneignin hefur hins vegar engin áhrif á mat á skuldbindingum annarra launagreiðenda komi til uppgjörs á þeim. Bakábyrgð ríkissjóðs er sá hluti af skuldbindingum sjóðanna sem ekki er mætt með eignum sjóðanna eða kröfu þeirra á launagreiðendur vegna lífeyrishækkana. Eignir sjóðanna eru m.a. háðar ávöxtun þeirra en lífeyrishækkanir eru háðar hækkunum á dagvinnulaunum. Slök ávöxtun samfara miklum hækkunum á dagvinnulaunum eykur bakábyrgð ríkissjóðs.