Lífeyrissjóður Vesturlands tekur þátt í sameiningar-viðræðum Lífeyrissjóðs Suðurnesja og Lífeyrissjóðs Suðurlands.

Stjórnir Lífeyrissjóðs Vesturlands og Lífeyrissjóðs Suðurnesja hafa tekið ákvörðun um að hefja könnunarviðræður vegna hugsanlegrar sameiningar sjóðanna. Fulltrúar Lsj. Suðurlands munu einnig taka þátt í viðræðunum.

Megintilgangur sameiningar sjóða er að ná frekari hagræðingu í rekstri og auka áhættudreifingu og þar með getu til að standa við lífeyrisskuldbindingar. Þá segir í fréttatilkynningu Lífeyrissjóðs Suðurnesja og Lífeyrisjsóðs Vesturlands að starfsumhverfi lífeyrissjóða á Íslandi hafi á síðustu árum breyst gífurlega og eigi það við um almenna þjónustu við sjóðfélaga, atvinnurekendur og stéttarfélög, skýrslugerð til opinberra aðila, rafræn viðskipti, gerð fjárfestingastefna og almenna upplýsingagjöf. Stjórnendur sjóðanna telja því nauðsynlegt að kanna nánar kosti þess að sameina sjóðina.