Raunávöxtun Lífeyrissjóðs Vesturlands var 11,1% árið 2004. Hrein raunávöxtun þegar búið er að taka tillit til rekstrarkostnaðar var 11%. Í árslok 2004 var hrein eign til greiðslu lífeyris tæpir 11,3 milljarðar en það er hækkun um 18% á milli ára. Heildarskuldbindingar umfram eignir um síðustu áramót námu 2,1%. Þetta er betri staða en á árinu 2003 en þá voru heildarskuldbindingar umfram eignir 2,6%.
Innlend hlutabréf í eigu sjóðsins skiluðu góðri ávöxtun á árinu, þannig var nafnávöxtun innlendra hlutabréfa í stýringu sjóðsins 59,2% og raunávöxtun 53,6%. Til samanburðar var raunávöxtun heildarvísitölu aðallista Kauphallar Íslands 46,9%.
Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa í USD var 14,9%, en til samanburðar hækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) í USD um 12,8%. Sökum mikillar styrkingar íslensku krónunnar gagnvart helstu myntum varð nafnávöxtun erlendra hlutabréfa mæld í ISK neikvæð um 2,8% og raunávöxtun neikvæð um 6,5%. Sjóðurinn varði að meðaltali helming gjaldeyrisáhættu sinnar á árinu 2004, en ábati þess er ekki innifalinn í ofangreindri ávöxtunartölu. Hlutabréf nema 25% af fjárfestingum sjóðsins í árslok.
Raunávöxtun skuldabréfa sjóðsins var 8,7%, en sjóðurinn gerir upp skuldabréf miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi. Vægi skuldabréfa er 72% af fjárfestingum sjóðsins. Bundin innlán, sem nema 3% af fjárfestingum, skiluðu 4,7% raunávöxtun.
Iðgjöld ársins námu 555 milljónum, sem er 10,5% aukning frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 325 milljónum, en það er 7% hækkun frá fyrra ári.
Tryggingafræðileg úttekt í lok ársins 2004 sýnir að eignir umfram áfallnar skuldbindingar sjóðsins nema 7,1% af áföllnum skuldbindingum. Heildarskuldbindingar umfram eignir eru hins vegar 2,1%. Þetta er betri staða en á árinu 2003 en þá voru heildarskuldbindingar umfram eignir 2,6%. Verður þetta að teljast afar góð niðurstaða í ljósi þess að notast er við nýja staðla um lífs- og örorkulíkur sem auka lífeyrisskuldbindingar sjóðsins verulega. Meginástæða betri tryggingafræðilegrar stöðu er góð ávöxtun sjóðsins undanfarin tvö ár, en einnig vegur þungt að örorkutíðni hjá sjóðnum er nokkuð undir því meðaltali sem fékkst úr úrtaki 17 lífeyrissjóða og myndar grundvöll nýrra örorkustaðla.
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár er 3,3%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 10 ár er 6,3%.
Ársfundur Lífeyrissjóðs Vesturlands verður haldinn 12. maí n.k. kl. 14 að Kirkjubraut 40, Akranesi.