Raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) var jákvæð um 1,1% á síðasta ári og eignir sjóðsins nema nú tæpum 300 milljörðum og eru nú um 30 milljörðum króna hærri en þær voru fyrir hrun bankanna og íslenska efnahagskerfisins. Eignir LV eru um 16% af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða. Þetta kom fram á ársfundi LV sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík í gær.
Í kjölfar efnahagshrunsins hefur stjórn LV gripið til margháttaðra aðgerða til þess að efla sjóðinn og búa hann sem best undir verkefni sín í framtíðinni. Það hefur m.a. verið gert með aukinni upplýsingagjöf til sjóðfélaga, m.a. með því að opna fjárfestingavef á heimasíðu sjóðsins þar sem unnt er að nálgast upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins, fjárfestingarstefnu hans, ávöxtun, eignastýringu og eignasamsetningu. Stjórnin hefur unnið að stefnumótun með aðkomu Capacent varðandi hlutverk sjóðsins, framtíðarsýn hans og grunngildi auk þess sem stjórn LV hefur innleitt nýjar og skýrar siða- og samskiptareglur.
Virkir sjóðfélagar í LV eru rúmlega 32 þúsund en tæplega 48 þúsund greiddu eitthvað til sjóðsins á árinu. Um 127 þúsund sjóðfélagar eiga réttindi hjá sjóðnum og um 9300 félagar fengu greiddan lífeyri frá LV á síðasta ári. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er mjög mikilvægur í íslensku samfélagi því alls eiga um 136.000 manns hagsmuna og réttinda að gæta í LV.
Ræða Helga Magnússonar, formanns stjórnar LV