Lífeyrissjóður verkfræðinga: 4,64% hrein raunávöxtun s.l. fimm ár að meðaltali.

Lífeyrissjóður verkfræðinga hefur birt ársreikning sinn fyrir árið 2001. Heildareignir sjóðsins jukust um 12,6% frá fyrra ári og námu tæpum 12 milljörðum króna í árslok. Hrein raunávöxtun sjóðsins á árinu 2000 var neikvæð um 5,15%, en hefur á sl. fimm árum verið jákvæð um 4,64% að meðaltali.

Í lok ársins 2001 áttu 2556 sjóðfélagar réttindi í Lífeyrissjóði verkfræðinga, en 2114 sjóðfélagar greiddu iðgjöld í sjóðinn á árinu. Að jafnaði greiddu 1882 sjóðfélagar reglulega mánaðargreiðslur í sjóðinn. Árið 2001 var lífeyrissjóðnum óhagstætt en var þó skárra en árið á undan. Fjárfestingartekjur voru jákvæðar um 401 milljón króna, en nægðu þó ekki til að tryggja sjóðnum í heild jákvæða raunávöxtun þar sem verðbólga var veruleg á árinu. Þetta stafaði fyrst og fremst af áframhaldandi lækkun hlutabréfaverðs á helstu mörkuðum erlendis, en veiking íslensku krónunnar dró þó úr áhrifum lækkunarinnar. Nafnávöxtun erlendra verðbréfa í eigu sjóðsins var neikvæð um 10,4% í krónum (25,9% í dollurum). Nafnávöxtun íslenskra hlutabréfa í eigu sjóðsins var hins vegar jákvæð um 2,5%. Vöxtur samtryggingardeildar sjóðsins varð talsverður á árinu. Iðgjöld jukust um 21% milli ára og hækkun á hreinni eign sjóðsins varð 11,6% eða 1220 milljónir króna. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok 2001 kr. 11.778.698.963. Þetta var þriðja starfsár séreignardeildar Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Iðgjaldagreiðslur jukust um 96% frá fyrra ári og greiddu 445 sjóðfélagar í þennan sparnað. Hrein eign deildarinnar í lok ársins 2001 var kr. 202.963.156. Nafnávöxtun séreignardeildarinnar var 11,88% og hrein raunávöxtun 2,65%. Lífeyrir var greiddur til 131 sjóðfélaga eða maka á árinu 2001 að fjárhæð kr. 117.281.038. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á stöðu Lífeyrissjóðs verkfræðinga í árslok 2001 kemur fram að 5,0% vantar upp á að eignir sjóðsins og framtíðariðgjöld nægi fyrir heildarskuldbindingum sjóðsins. Samkvæmt ákvæðum laga 129/1997 ber að breyta ákvæðum samþykkta lífeyrissjóða ef munur milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga verður meiri en 10%, og er þá miðað við heildarskuldbindingu. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Sá halli sem nú reiknast á Lífeyrissjóði verkfræðinga gerir sjóðnum því ekki skylt að grípa til aðgerða, en í lok árs 2000 var halli á sjóðnum minna en 5% þegar litið er til heildarskuldbindinga.


Sjá nánar heimasíðu Lsj. verkfræðinga: www.lifsverk.is