Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga lækkar vexti í 4,3%.

Þá lækka vextir lána með breytilegum vöxtum í 4,45%. Breytilegir vextir eru endurskoðaðir mánaðarlega. Breytilegir vextir sjóðfélagalána taka breytingum 15. hvers mánaðar og eru 0,60% (punktum) hærri en meðalávöxtun í síðustu þrjá almanaksmánuði á nýjasta flokki Íbúðabréfa til 30 ára.

 Heimilt er að veita lán til 40 ára og ekki er hámark á lánsfjárhæð enda uppfylli veðið almenn skilyrði lánveitinga á hverjum tíma sem er 65% af fasteignamati eða 55% af verðmati.  Sé lán hærra en 5 milljónir króna þarf að fylgja greiðslumat umsækjanda. 

Réttur til lántöku var rýmkaður og nær nú til allra starfsmanna sveitarfélags,  stofnunar þess eða fyrirtækis, og þeirra sem kjörnir eru í nefndir eða ráð á vegum sveitarfélagsins.  Aðrir sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins eða lífeyrissjóða með bakábyrgð sveitarfélags hafa ennfremur rétt til lántöku. Lífeyrisþegar, sem uppfylla framangreind skilyrði geta átt kost á láni hjá sjóðnum. 

Lántakendum lána sem bera fasta vextir verður heimilt til 1. apríl 2005 að skilmálabreyta þeim lánum þannig að þau beri framvegis breytilega vexti eða 4,3% fasta vexti.  Skilmálabreyting láns með þessum hætti er einungis heimil einu sinni.  Gjald vegna þessara skilmálabreytingar er 0,25% af eftirstöðvum láns, þó aldrei lægra en kr.1.800.

Lántakandi getur hvenær sem er greitt upp lán án nokkurs kostnaðar.