Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur ákveðið að vísa máli sjóðsins gegn íslenska ríkinu til Mannréttindanefndar Evrópu. Sem kunnugt er sýknaði Hæstiréttur í desember sl. íslenska ríkið af öllum kröfum sjóðsins, en sjóðurinn hafði krafið ríkið um greiðslu vegna kostnaðar við lækkun á ellilífeyrisaldri sjómanna.
Hæstiréttur hafði í desember s.l. sýknað íslenska ríkið af kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna um 1,4 milljarða króna bætur vegna lagabreytinga sem gerðar voru árið 1981 og sjóðurinn taldi hafa leitt til þess að eignir hans skertust. Vísaði sjóðurinn til ákvæða stjórnarskrár um eignarétt og taldi að ríkisvaldinu bæri að bæta þessa eignaskerðingu að fullu. Hæstiréttur taldi hins vegar að umrædd lagabreyting hefði ekki leitt til þess, að fjármunir væru teknir frá Lífeyrissjóði sjómanna heldur hefðu greiðslur hans aukist til ákveðinna sjóðfélaga á kostnað heildarinnar. Lagabreytingarnar, sem um var deilt, leiddu til hækkunar lífeyrisgreiðslna til sjóðfélaga sem hófu töku lífeyris fyrir 65 ára aldur og því aukinna lífeyrisskuldbindinga Lífeyrissjóðs sjómanna. Nú hefur sem sagt stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna ákveðið að vísa þessu deilumáli sjóðsins gegn íslenska ríkinu til Mannréttindanefndar Evrópu.