Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur ákveðið að stefna fjármálaráðherra til greiðslu á þeim kostnaði sem féll á sjóðinn á árunum 1981-1994 vegna töku sjóðfélaga á ellilífeyri fyrir 65 ára aldur. Krafa sjóðsins nemur tæplega 1.300 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi sjóðsins.
Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur ávallt talið að ríkissjóður beri ábyrgð á þeim kostnaði sem sjóðurinn varð fyrir vegna töku sjóðfélaga á ellilífeyri fyrir 65 ára aldur á þessu árabili. Frá árinu 1981 hefur árangurslaust verið reynt að fá ríkið til þess að greiða þann kostnað, nú síðast núverandi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs á árunum 1998 og 1999. Seint á síðasta ári barst svar ráðherra þar sem öllum kröfum sjóðins er hafnað. Forsaga þessa máls er sú að árið 1981 breytti Alþingi lögum um Lífeyrissjóð sjómanna á þann veg að sjóðfélögum var heimilt að hefja töku ellilífeyris án lækkunar réttinda frá 60 ára aldri að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin voru þau að sjóðfélagi hafi verið lögskráður á íslensk skip að meðaltali 180 daga á ári í 25 ár. Með sama hætti veitti 20 ára sjómennska rétt til töku ellilífeyris frá 61 árs aldri og 15 ára sjómennska frá 62 ára aldri. Almennur ellilífeyrisaldur var áfram 65 ár og fyrir þessa lagabreytingu höfðu sjóðfélagar átt þess kost að hefja töku ellilífeyris allt frá 60 ára aldri, en þá með lækkun sem nam 0,3% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris var flýtt fyrir 65 ára aldur. Umrætt lagafrumvarp, sem lagt var fram af ríkisstjórn, lagði verulega aukinn kostnað á Lífeyrissjóð sjómanna og breytingarnar voru gerðar án samráðs við stjórn sjóðsins og án þess að gerð væri úttekt á fjárhagslegum afleiðingum breytinganna. Í kjölfar þessara breytinga fór staða sjóðsins stöðugt versnandi og í tryggingafræðilegri úttekt á sjóðnum sem miðaðist við árslok 1992 kom fram að halla sjóðsins mætti rekja til þess að sjóðurinn greiddi ellilífeyri almennt frá 65 ára aldri og allt niður í 60 ár á meðan aðrir lífeyrissjóðir greiddu almennt lífeyri frá 65 ára aldri. Með lagabreytingu og setningu reglugerðar um Lífeyrissjóð sjómanna sem tók gildi í september 1994 var breytt reglum um töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur og teknar upp svipaðar reglur og giltu fyrir lagabreytinguna 1981 en sá kostnaður sem sjóðurinn varð fyrir á umræddu árabili hefur enn ekki fengist bættur.