Lífeyrissjóður sjómanna opnar heimasíðu.

Upplýsinga- og þjónustuvefur Lífeyrissjóðs sjómanna, sem nýlega var opnaður, er í stöðugri þróun. Nú er unnið að því m.a. að sjóðfélagar geti innan skamms fengið beinan aðgang að gagnagrunni lífeyrissjóðsins og flett upp á eigin stöðu.

Með opnun upplýsinga- og þjónustuvefs Lífeyrissjóðs sjómanna er boðið upp á nýja og aukna þjónusta við sjóðfélaga. Hlutverk upplýsinga- og þjónustuvefsins er að kynna starfsemi sjóðsins almennt, auðvelda sjóðfélögum upplýsingaleit og miðla hagnýtum upplýsingum á einfaldan hátt. Á heimasíðunni geta sjóðfélagar fengið ýmsar upplýsingar um sjóðinn eins og lög og samþykktir, lánareglur, afkomu, prentað út umsóknareyðublöð o.fl. Nú er unnið að því m.a. að sjóðfélagar geti innan skamms flett upp á eigin stöðu, stigum, lífeyrisgreiðslum og stöðu lána. Þá mun verða hægt að reikna út greiðslubyrði lána og reikna út lífeyri miðað við ákveðnar forsendur. Mikil áhersla hefur verið lögð á öryggisþátt þessa kerfis og ógerlegt er fyrir sjóðfélaga að skoða önnur gögn en sín eigin. Í fyrstu verður boðið upp á aðgang að upplýsingum um iðgjöld, lífeyrisgreiðslur og stöðu lána, en í framtíðinni er ætlunin að bjóða upp á fleiri möguleika. Til að geta skoðað réttindi sín þurfa sjóðfélagar að sækja um aðgang og fá þeir úthlutað notendaheiti og lykilorði. Vefslóð Lífeyrissjóðs sjómanna er http://www.lifsjo.is/