Lífeyrissjóður norsku ríkisstjórnarinnar setur stærsta gullframleiðenda heims á svartan lista.

Lífeyrissjóður norsku ríkisstjórnarinnar, sem metinn er á um 250 milljarða evra, hefur bætt tveimur fyrirtækjum við á „svartan lista“ hjá sér vegna brota á siðareglum sjóðsins:  kanadíska gullframleiðandanum Barrick Gold Corporation og bandaríska vopnaframleiðandanum Textron Inc.

 

Sjóðurinn, sem hér á Íslandi er oft kallaður norski olíusjóðurinn,  segist nú þegar hafa selt 140 milljóna evra hlut sinn í Barrick Gold, stærsta gullframleiðanda heims, vegna gruns um að umhverfisspjöll séu framin við Porgera-námuna í Papúa Nýju Gíneu. Náman er rekin af Porgera Joint Venture en Barrick Gold á 95% í því fyrirtæki.

 

Fjárfestar um allan heim fylgjast náið með breytingum á bannlista norska sjóðsins vegna þess að siðaráð hans leggur mikið upp úr því að rannsaka vel mál sem honum tengjast. Aðrir stofnaðafjárfestar taka því oft mið af ákvörðunum sjóðsins.

Norski sjóðurinn beindi sjónum sínum að Porgera námunni  en bætti við að hann hefði einnig áhyggjur af annarri námustarfsemi Barrick Gold, sem hefur sætt töluverðri gagnrýni frá hópum umhverfissinna: „Það er mat siðaráðsins, að þeir starfshættir  fyrirtækisins, að hella úrgangsefnum í ár, fari á svig við alþjóðareglur. Ráðið telur því að staðhæfingar fyrirtækisins, um að starfsemi þess valdi hvorki langtíma- né  óafturkræfum umhverfisspjöllum, eigi við lítil rök að styðjast. Það styrkir svo þessa niðurstöðu að bæði skortir á gegnsæi og upplýsingar í umhverfisskýrslum fyrirtækisins. Í ljósi áætlana þess um framleiðsluaukningu þykir  ráðinu liggja beint við að draga þá ályktun að óviðunandi framleiðsluhættir þessi verði áfram við lýði.“

 

Sjóðurinn hefur einnig selt  28 milljóna evra hlut sinn í bandaríska flugvéla- og vopnaframleiðandanumTextron Inc. vegna þáttar hans í framleiðslu á klasasprengjum. Klasasprengjur brjóta í bága við alþjóðlegan samning um bann við klasavopnum sem Noregur hefur fullgilt og skrifað var undir í Osló í desember 2008.

 

 „Við getum ekki tekið þátt í að fjármagna svona framleiðslu,“ segir fjármálaráðherra Noregs, Kristin Halvorsen.  Sjóðurinn sagði að tæknileg skilgreining á  klasavopnum, sem samþykkt var á sérstakri ráðstefnu um klasavopn, hafi verið heldur strangari en fyrri skilgreining lífeyrissjóðsins og tekið til nokkurra vopna sem ekki hefði áður þótt ástæða til að banna. Fjármálaráðuneyti Noregs hefur hingað til sett níu fyrirtæki á bannlista sjóðsins vegna framleiðslu á klasavopnum og farið þar að ráðum siðaráðs lífeyrissjóðs norsku ríkisstjórnarinnar.