Lífeyrissjóður Norðurlands stækkar við samruna.

Á aukaársfundi Lífeyrissjóðs Norðurlands, sem haldinn var í síðasta mánuði á Hótel Varmahlíð í Skagafirði, voru samrunasamningar sjóðsins við tvo aðra lífeyrissjóði samþykktir samhljóða. Einnig voru nýjar samþykktir hins sameinaða lífeyrissjóðs, sem tóku gildi nú um áramótin, samþykktar samhljóða. Allir byggðakjarnar Norðurlands eru nú innan vébanda Lífeyrissjóðs Norðurlands.

Sjóðirnir sem sameinast Lífeyrissjóði Norðurlands eru Lífeyrissjóður verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra og Lífeyrissjóður KEA. Með sameiningunni verður til einn lífeyrissjóður fyrir allt Norðurland, frá Hrútafirði að Langanesi. Í árslok 1999 námu eignir Lífeyrissjóðs Norðurlands tæplega 19 milljörðum króna, Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra rúmlega 3 milljörðum og Lífeyrissjóðs KEA tæplega 3 milljörðum króna. Heildareignir hins nýja sjóðs verða því um 25 milljarðar króna og félagssvæðið mun ná til allra byggðakjarna á Norðurlandi.