Lífeyrissjóður Norðurlands: Réttindastuðull lækkaður en stig sjóðfélaga hækkuð á móti.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati á stöðu Lífeyrissjóðs Norðurlands, miðað við síðustu áramót, er staða sjóðsins neikvæð um 12,3% og eru það einkum svokallaðar framtíðarskuldbindingar sjóðsins sem eru neikvæðar. Samkvæmt lögum verður stjórn sjóðs að grípa til ráðstafana ef munur á eignum og skuldbindingum er umfram 10%. Í samræmi við þetta hefur stjórn Lífeyrissjóðs Norðurlands ákveðið að leggja til breytingar á samþykktum sjóðsins á komandi ársfundi til að draga úr skuldbindingum.

Tillögur stjórnarinnar miða að því að sem minnst röskun verði á þeim réttindum sem sjóðfélagar hafa þegar áunnið sér í sjóðnum. Með þetta að leiðarljósi leggur stjórn sjóðsins til að gerðar verði breytingar á réttindakerfi sjóðsins sem draga verulega úr framtíðarskuldbindingum sjóðsins, en hafa óveruleg áhrif á áunnin réttindi og engin áhrif á lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum.

 Breytingin er fólgin í að lækka réttindastuðla sjóðsins en hækka jafnframt áunnin stig sjóðfélaga um 12%. Auk þessa er greiðslutími makalífeyris og framreikningsréttur í maka- og örorkulífeyri styttur lítið eitt.  Þá er heimiliðu flýting á töku ellilífeyris til allt að 62ja ára aldurs til að koma til móts við kröfur um sveigjanleg starfslok. Með þessum þessum breytingum lækka skuldbindingar sjóðsins um 4.633 milljónir króna og er hann þá vel innan allra marka sem honum eru sett samkvæmt lögum.

Í hnotskurn má segja að tillögurnar feli í sér að áunnum réttindum sé haldið að mestu óbreyttum, en hins vegar dregið talsvert úr því sem lofað er að veita í framtíðinni, en núgildandi réttindakerfi sjóðsins lofar nokkuð ríkulegri réttindum en hægt er að standa undir miðað við þá 3,5% ávöxtun sem gengið er út frá í tryggingafræðilegum athugunum. Eftir sem áður mun endanlegur lífeyrir ráðast af ávöxtun sjóðsins og lífslíkum sjóðfélaga í framtíðinni.


Sjá nánar heimasíðu Lífeyrissjóðs Norðurlands