Nafnávöxtun Tryggingadeildar Lífeyrissjóðs Norðurlands var 1,8% á árinu 2000 og raunávöxtun -2,3%. Á síðustu 5 árum er árleg nafnávöxtun sjóðsins að meðaltali 12,1% og raunávöxtun 8,83%. Sjóðurinn fór ekki varhluta af þeim erfiðleikum sem urðu á verðbréfamörkuðum á síðasta ári.
Á síðasta ári voru réttindi sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Norðurlands hækkuð um 14,3%. Góð afkoma sjóðsins hafði hækkað eignir umfram skuldbindingar og var ákveðið að ráðstafa ávinningnum til sjóðfélaga. Hver króna sem greidd er til sjóðsins, gefur nú meiri réttindi sem þessari hækkun nemur. Útreikningsstuðlar fyrir elli- og örorkulífeyri voru einnig hækkaðir um 14,3%. Um síðustu áramót sameinuðust Lífeyrissjóður stéttarfélaga á Norðurlandi vestra og Lífeyrissjóður KEA Lífeyrissjóði Norðurlands. Heildareignir sjóðsins eru nú um 26 milljarðar króna og greiða tæplega 13000 sjóðfélagar hjá ríflega 1500 launagreiðendum iðgjöld til sjóðsins. Fjöldi lífeyrisþega er yfir 3600 manns.