„Það kann að hafa komið almenningi í opna skjöldu að ríkisstjórnin skyldi slíta viðræðum um fjármögnun vegaframkvæmda en samningamenn lífeyrissjóðanna vissu að svo gæti farið og reyndar vorum það við sem bentum fulltrúum ríkisins á það fyrir nokkrum mánuðum að fara þá leið sem þeir hafa nú valið,“ segir Arnar Sigurmundsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, um viðræðuslit ríkis og lífeyrissjóðanna. Hann bætir því við það hafi áður strandað á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ríkið gæfi sjálft úr skuldabréf og endurlánaði síðan félögunum sem stofnuð yrðu til að standa að vegaframkvæmdum á stofnbrautum fyrir sunnan og við Vaðlaheiðargöng fyrir norðan.
Við og fulltrúar ríkisins höfðum náð saman um verðtryggt lán til 30 ára með 3,9% vöxtum og að endurgreiðsla hæfist að fimm árum liðnum, 2015, eftir að framkvæmdum lyki. Þá var kveðið á um sérstakan vaxtaauka til lífeyrissjóða, 0,3%, ef umferðin ykist um meira en 2% að meðaltali á ári eftir að framkvæmdum lyki, miðað við fyrirliggjandi forsendur um arðsemi framkvæmdanna.
Um þetta var með öðrum orðið komið á samkomulag lífeyrissjóða og ríkisvaldsins en þá steytti á kröfu ríkisins um að vextir væru breytilegir þegar dregið væri á lánið á framkvæmdatímanum 2011-2015. Með því móti ætlaði ríkið lífeyrissjóðunum að skrifa sig fyrir kaupum á skuldabréfum upp á 32 milljarða króna án ríkisábyrgðar en með tryggingu í tekjustreymi félaganna tveggja af umferðinni og Vaðlaheiðargöngum út lánstímann, sem var 30 ár. Þetta átti að gera án þess að nokkuð lægi fyrir með grunnvextina en samkomulag var um 0,5% álag á HFF 44 íbúðabréf. Þau voru þá með 3,42% ávöxtunarkröfu og þannig varð samtala raunvaxta 3,9%.“
Í Morgunblaðinu var haft eftir Kristjáni L. Möller, aðalsamningamanni ríkisins, að „lífeyrissjóðirnir séu ekki alveg komnir niður á jörðina hvað varðar vaxtastigið í landinu. “ Og KLM bætir um betur með því að segja að lífeyrissjóðir „ megi ekki vera til þess að halda uppi háum vöxtum í landinu og koma þannig í veg fyrir hagvöxt.“ Þá má skilja á KLM að lífeyrissjóðir standi ekki undir samfélagslegri ábyrgð sinni með því að fallast ekki á kröfur ríkisins.
Arnar Sigurmundsson segir að staðreyndir liggi fyrir um á hverju hafi strandað og aðrir verði að meta hvort það bendi til þess að lífeyrissjóðirnir „séu ekki komnir niður á jörðina“ með því að skrifa ekki upp á samninga um að lána tugi milljarða króna með breytilegum vöxtum til áratuga, án ríkisábyrgðar á skuldabréfum.
„Fráleitt er að draga þá ályktun af afstöðu lífeyrissjóðanna í þessu máli að þeir skynji ekki samfélagslega ábyrgð sína, horfist ekki í augu við staðreyndir um fjármála- og efnahagslífið og vilji halda uppi vöxtum í landinu. Vissulega er það rétt að vextir eru á niðurleið núna og kunna að lækka enn frekar en þeir gætu líka hækkað og það verulega, eins og dæmin sanna, þegar lifnar yfir markaðinum og gjaldeyrishöftum verður aflétt.“
Athygli vekur að á fréttamannafundinum í gær töluðu Kristján L. Möller og ráðherrar ríkisstjórnarinnar um að framkvæmt yrði fyrir 40 milljarða króna í vegakerfinu á næstu árum. Fljótt á litið virðist svo sem markið hafi nú verið sett hærra en rætt var um í viðræðum við lífeyrissjóðina þegar gert var ráð fyrir framkvæmdum upp á alls 32 milljarða króna. Þegar að er gáð kemur í ljós að hér er áfram verið að tala um 32 milljarða en bætt við virðisaukaskatti svo út verður tala 40 milljarðar króna. Hingað til hefur alltaf verið talað um framkvæmdaupphæðina án virðisaukaskatts en nú þykir ríkinu hljóma betur að bæta við virðisaukaskatti, án þess að geta þess sérstaklega. 40 milljarðar króna hljóma líka óneitanlega betur út á við en 32 milljarðar!