Stjórnvöld hafa fallið frá að skattleggja lífeyrissjóðina með sérstökum eignaskatti til að fjármagna vaxtaniðurgreiðslur. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og skattanefndar segir að lagt sé til að ákvæðið um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu falli brott. Eftir sem áður sé gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir taki þátt í kostnaði vegna vaxtaniðurgreiðslnanna og að stjórnvöld og sjóðirnir nái samkomulagi um fjármögnunina fyrir þing- og nefndarfundi í september n.k. Tillaga þessi náði fram að ganga rétt í þann mund sem Alþingi var slitið s.l. laugardag.