Sem dæmi um trausta fjárhagslega og tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna þarf enginn lífeyrissjóður að minnka lífeyrisréttindi sjóðfélaga, þrátt fyrir að ekki náðist nægjanlegan góður fjárfestingarárangur í fyrra. Þvert á móti voru nokkrir lífeyrissjóðir, sem reknir voru með meira en 10% afgang milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga.
Sjóðir þeir sem hér um ræðir eru: Almennur lífeyrissjóður VÍB, ALVÍB, þar sem hrein eign umfram heildarskuldbindingar nam 16,8% í lok síðasta árs. Lífeyrissjóður arkitekta og tæknifræðinga með 17,1% umfram heildarskuldbindingar og Lífeyrissjóður Suðurlands með 10,1% umfram skuldbindingar. Skýringin á sterkri tryggingafræðilegri stöðu ALVÍB og Lsj. arkitekta og tæknifræðinga má m.a. rekja til þess að samsetning hópsins sem greiðir iðgjöld er öðruvísi en reiknað var með þegar fyrstu iðgjaldatöflurnar voru útbúnar. Vegna þessa voru áunnin réttindi hækkuð, settar inn nýjar iðgjaldatöflur og greiddur bónus í séreignarsjóð. Hjá ALVÍB var ákveðið að breyta iðgjaldatöflum sjóðsins, þannig að greidd iðgjöld veita nú u.þ.b. 8% meiri réttindi en áður auk þess sem eldri réttindi voru endurreiknuð. Jafnframt var ákveðið að hver sjóðfélagi, sem átti réttindi í samtryggingarsjóði um síðustu áramót, fengi u.þ.b. 10% af útreiknaðri skuldbindingu um áramót sem bónusgreiðslu í séreignarsjóð. Hjá Lífeyrissjóði arkitekta og tæknifræðinga var iðgjaldatöflum breytt þannig að greidd iðgjöld veiti u.þ.b. 8% meiri réttindi. Áunnin réttindi voru endurreiknuð samkvæmt nýjum iðgjaldatöflum og hver sjóðfélagi fékk 9,5% af reiknaðri skuldbindingu sinni sem bónus til að auka lífeyrisréttindi sín í samræmi við samþykktir sjóðsins. Hjá Lífeyrissjóði Suðurlands eru málin í athugun en þess er að vænta að lífeyrisréttindin verði aukin frá því sem nú er. Raunávöxtun lífeyrissjóðann á undanförnum árum hefur verið vel yfir þeim mörkum sem tryggingafræðingar styðjast við þegar fjárhagsleg staða lífeyrissjóðanna er metin. Hin góða raunávöxtun sem sjóðirnir hafa almennt búið við á síðustu árum hefur jafnframt að fullu skilað sér í auknum lífeyrisréttindum sjóðfélaga.