Lífeyrissjóðir verði í forystu um samfélagslegar sættir

„Lífeyrissjóðir eiga að vera í fararbroddi um samfélagslegar sættir. Þeir hefja sáttaferlið með umbjóðendum sínum, hlusta á gagnrýni þeirra, viðurkenna mistök og stuðla að virkri umræðu og betri starfsháttum. Þannig endurheimta þeir ekki aðeins traust heldur veita forystu nýjum hugsunarhætti og vinnubrögðum,“ sagði Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, í erindi á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða á dögunum.


 Salvör velti fyrir sér hvað fælist í raun í hugtökum á borð við traust, trúverðugleika og í hvaða hlutverkum lífeyrissjóðir ættu að vera í endurreisn samfélagsins eftir hrun. Hún svaraði fyrirspurnum að erindi loknu og sagði þar meðal annars að lífeyrissjóðanna sjálfra væri að kveða upp úr með hvort þeir vildu láta kanna frekar starfsemi sína og starfshætti í aðdraganda efnahagshrunsins. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svaraði efnislega á sama veg um á aðalfundinum þegar spurning um sérstaka rannsókn vegna lífeyrissjóða bar á góma.

„Íslenskt samfélag hefur nú einstakt tækifæri til umbóta. Örlagasagan, sem rakin er í rannsóknarskýrslu Alþingis, á að hvetja okkur til nýrrar hugsunar um samfélagið og þær stofnanir sem við ráðum. Ég höfða sérstaklega til lífeyrissjóða í þessu efni, ekki síst vegna sterkra tengsla þeirra við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið,“ sagði Salvör Nordal.

„Það er miklvægt fyrsta skref að viðurkenna mistök og að við sýnum auðmýkt gagnvart því verkefni sem framundan er. Þeir sem beðnir eru afsökunar þurfa líka að sýna vilja til að meðtaka afsökunina og stuðla þannig að því að raunveruleg breyting eigi sér stað. Annars er hætta á  viðvarandi tortryggni og andúð sem grefur smám saman undan samfélaginu okkar.“

Blekking höfuðóvinur trausts

Salvör vitnaði í siðfræðikafla rannsóknarskýrslu Alþingis og sagði að skortur á siðaregum. lífeyrissjóða hefði veikt stöðu þeirra og stuðlað að vantrausti. Traust sé í eðli sínu brothætt. Þá hafi „umhverfi skammsýni og skammtímasjónarmiða“ á þensluskeiðinu verið andstætt lífeyirssjóðum og hún bætti við:

„Lífeyrissjóðir eiga að vera í fararbroddi við að sýna fyrirtækjum aðhald og stuðla að endurbótum. Það geta þeir hins vegar ekki nema hyggja fyrst að eigin starfsháttum. Traust þarf að ríkja, það er afar mikilvægt. Umræða um traust og trúverðugleika lífeyrissjóða snýst að minnsta kosti um tvennt, annars vegar því að koma á starfsháttum sem stuðla að trausti og hins vegar að endurheimta glatað traust. Óvíst er að sömu meðul dugi fyrir bæði verkefnin.

Gegnsæi er vissulega eitt af því sem skiptir miklu máli en upplýsingamiðlun er út af fyrir sig ekki lausnarorð! Gegnsæi er í raun birtingarmynd þess siðferðilega gildis að koma í veg fyrir blekkingar. Upplýsingar geta verið réttar og nákvæmar jafnframt villandi, ómarkvissar og blekkjandi. Blekking er mesti óvinur trausts enda held ég að ástæða vantrausts sé sú að fólki finnst það hafa verið blekkt á mörgum sviðum.

Traust byggist á tengslum fólks en einstaklingsmiðuð réttindi verða til þegar við stillum okkur upp gagnvart öðrum. Það er mikilvægara að huga að skyldum gagnvart öðru fólki til að rækta traust í stað þess að hver hugsi um sig. Athyglinni er hér beint að því sem tengir fólk saman en ekki hvernig fólk getur skapað sér svigrúm gagnvart öðrum. Traust þrífst í nálægð ekki í fjarlægð.“

Uppgjörsferli í áföngum

Salvör Nordal kvaðst ekki vilja leggja dóm á hvort lífeyrissjóðir hafi gert nóg með svokallaðri lærdómsskýrslu sinni, enda skorti sig forsendur til slíks. Hún fór hins vegar almennt yfir hvernig hún sér fyrir sér að ferli sjálfsgagnrýni og uppgjörs eigi að vera eftir efnahagshrunið til að fyrirtæki og stofnanir samfélagsins öðlist traust almennings á nýjan leik.

„Þegar sannleikurinn liggur fyrir á að stíga næstu skref. Lífeyrissjóðirnir þurfa sjálfir að svara því hvort þörf sé ítarlegrar rannsóknar á eigin starfsemi. Ég hef sjálf ekki nægilegar forsendur til að meta hvort nægilega langt hafi verið gengið. Síðan á að meta ábyrgð einstaklinga og stofnana í næsta skrefi. Þriðja skrefið er að eitthvað sé gert þannig að þeir, sem bera ábyrgð á vanrækslu eða mistökum láti af störfum, og þeir, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum mistaka eða vanrækslu, séu beðnir afsökunar. Í afsökun felst að minnsta kosti þrennt:

  1. Mistök eru viðurkennd.
  2. Þeim, sem orðið hafa fyrir skaða, er sýndur skilningur á ranglætinu sem viðkomandi hefur verið beittur.
  3. Látinn er í ljósi vilji til að breyta starfsháttum og vinnubrögðum.

Sá sem biðst afsökunar sýnir þar með að hannn sjálfur hefur breyst. Í afsökun felst auðmýkt gagnvart því sem gerst hefur og gagnvart þeim sem orðið hafa fyrir skaða.

Það þarf að sýna í verki að við drögum rétta lærdóma af því sem átt hefur sér stað og gagnvart hvort öðru en hugsa ekki aðeins um að vernda eigin hagsmuni.“