Björn Valur Gíslason alþingismaður sér ástæðu til að vega harkalega og ómaklega að lífeyrissjóðunum á vefsíðunni Smugunni 18. nóvember 2012. Í pistlinum eru margar fullyrðingar sem ætla verður að séu byggðar á misskilningi og vankunnáttu um hlutverk og lagareglur sem gilda um lífeyrissjóðina. Landssamtök lífeyrissjóða harma að þingmaðurinn fari fram með þessum hætti en vilja að gefnu tilefni upplýsa um tilgang lífeyrisjóðanna og helstu reglur sem gilda um starfsemi þeirra.
Almenningur á lífeyrissjóðina
Hlutverk lífeyrissjóða er að greiða eftirlaun til æviloka þegar starfsævi lýkur, greiða örorkulífeyri ef einstaklingar verða óvinnufærir vegna örorku og styðja maka og börn við fráfall sjóðfélaga.
Í ársbyrjun 2012 áttu samtals 312.351 sjóðfélagar lífeyrisréttindi í íslensku lífeyrissjóðunum. Af þeim eru 253.769 með gilt heimilisfang á Íslandi eða um 80% af skráðum íbúum landsins.
Á árinu 2011 fengu 86.697 lífeyrisþegar greiddan lífeyri frá lífeyrissjóðunum, samtals 79 milljarða króna. Lífeyrisþegum hefur fjölgað verulega á tiltölulega skömmum tíma. Þannig fengu til dæmis 50.523 einstaklingar greidda 22 milljarða króna úr sjóðunum árið 2001.
Fyrir liggur að lífeyrisþegum muni enn fjölga verulega á næstu árum.
Lífeyrissjóðir verða að fara að lögum
Lífeyrissjóðirnir vilja vinna með stjórnvöldum á hverjum tíma og gera það en verða jafnframt að fylgja lögum, sem Alþingi samþykkir, og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Sjóðirnir hafa einhuga tekið þátt í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun verkefna og um skuldamál. Stjórnum sjóðanna ber samkvæmt lögum að ávaxta fjármuni með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.
Sjóðirnir hafa allt frá falli viðskiptabankanna í október 2008 lýst yfir vilja til að fjármagna opinberar framkvæmdir sem uppfylla þessi lagaskilyrði.
Sjóðirnir hafa ekki heimild til að fjármagna opinber verkefni á lakari kjörum en fást á markaði.
Lífeyrissjóðirnir hafa tekið þátt í opinberum úrræðum vegna greiðslu- og skuldavanda einstaklinga. Forráðamenn sjóðanna gera sér samt vel grein fyrir því að fjölmargir eiga enn í erfiðleikum, sérstaklega þeir sem tóku lán á árunum
2006-2008 þegar fasteignaverð var í hámarki.
Lífeyrisjóðirnir voru þátttakendur í svokallaðri 110% aðlögun veðskulda og samkomulagi um sértæka skuldaaðlögun.
Sjóðirnir hafa einnig tekið þátt í viðræðum við stjórnvöld um vanda þeirra sem voru með lánsveð. Þeim viðræðum er enn ólokið.
Á stjórnendum lífeyrissjóða hvílir sú ábyrgð og skylda að gæta að eignum sjóðfélaga sinna. Þeir hafa enga heimild til að gefa eftir eignir. Starfsemi sjóðanna er skilgreind í lögum þannig að þeir taki við iðgjöldum til ávöxtunar og greiði sjóðfélögum lífeyri. Tekið er beinilínis fram í lögum um sjóðina að þeim sé ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi. Slíkt ákvæði er sett í lög til að vernda lífeyrisréttindi og sparnað sjóðfélaga. Árétta ber að eignarrétturinn er jafnframt verndaður af stjórnarskránni. Þannig eru leikreglurnar og þær verða forráðamenn sjóðanna og stjórnvöld að virða á hverjum tíma.
Landssamtök lífeyrissjóða óska þingmönnum og stjórnvöldum velfarnaðar í mikilvægum störfum við að setja landinu lög og stjórna því. Samtökin eru reiðubúin að veita upplýsingar um starfsemi sjóðanna og umhverfi þeirra hvenær sem eftir því er leitað. Það er von okkar að framangreint sé til skýringar á starfsumhverfi sjóðanna og að fullyrðingum um að sjóðirnir „vilji ekki“ eitt og annað, hvað þá um að þeir „berjist af hörku“ gegn hugmyndum stjórnvalda, megi fara fækkandi í opinberri umræðu.