Lífeyrissjóðir hafa ekki farið út í að byggja og reka sérstakar íbúðir fyrir aldraða. Þeir hafa hins vegar um árabil tekið þátt í að fjármagna húsnæði af ýmsu tagi fyrir aldraða víðs vegar um land. Þetta er nefnt að gefnu tilefni.
Helgi Vilhjálmsson í Góu beinir nú enn einu sinni spjótum sínum að lífeyrissjóðum í blaðaauglýsingum og kallar eftir sjóðum sem séu tilbúnir að „fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða“. Í auglýsingum hans þessa dagana er fullyrt: „ ... það hefur enn enginn sjóður fjárfest í húsnæði fyrir aldraða“ eftir lagabreytingu 2011.
Slík fullyrðing er í besta falli misvísandi. Hver lífeyrissjóður svarar fyrir sig og stendur fyrir sínu máli varðandi fjárfestingar sínar. Landssamtök lífeyrissjóða telja hins vegar rétt að taka eftirfarandi fram:
Lífeyrissjóðirnir sem ein heild fjármagna langstærstan hluta íbúðarhúsnæðis landsmanna. Meðal eigna þeirra eru skuldabréf útgefin af ríkinu, Íbúðalánasjóði, bönkum (sértryggð skuldabréf með veði í fasteignum) og öðrum sem út eru gefin til að fjármagna íbúðarhúsnæði fyrir fólk á öllum aldri.
Sjóðirnir hafa auk þess með ákveðnum skilyrðum komið að fjármögnun húsnæðis fyrir aldraða sérstaklega, beint eða óbeint:
Eðli máls samkvæmt kanna lífeyrissjóðir sífellt fjárfestingarkosti af ýmsu tagi, þar á meðal húsnæði. Helga Vilhjálmssyni og öðrum athafnamönnum er að sjálfsögðu velkomið, líkt og öðrum, að kynna sjóðunum sjónarmið sín eða benda á tiltekin verkefni og sýna fram á arðsemi þeirra.
Rétt er samt að hafa hugfast í þessu samhengi að hlutverk lífeyrissjóða er að taka við iðgjöldum og ávaxta þau með sem bestum og öruggustum hætti til að vera vel í stakk búnir til að greiða lífeyri. Hver og einn lífeyrissjóður ávaxtar því fjármuni sjóðfélaga sinna með hliðsjón af kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.