Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu Lífeyrissjóðs Vestfirðinga hefur stjórn hans ákveðið að leggja til að áunnin lífeyrisréttindi og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkuð um 10% frá 1. janúar 2007.
Nafnávöxtun sjóðsins var mjög góð á árinu, 17% sem samsvarar 9,5% raunávöxtun og meðaltals raunávöxtun síðustu fimm ár er 8,7% og meðaltalsraunávöxtun síðustu tíu ár er 6,1%.
Erlend hlutdeildarskírteini og hlutabréf voru að gefa besta ávöxtun á árinu um 27%. Kemur þar til bæði hækkun á erlendum mörkuðum og lækkunar á gengi íslensku krónunnar. Ávöxtun innlendra hlutabréfa var viðunandi. Ávöxtun innlendra markaðsskuldabréfa var slök sem markaðist af verðlækkun sem varð á síðasta ársfjórðungi ársins.
Fjárfestingartekjur ársins námu 3,8 milljörðum króna. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 25,9 milljarður í lok árs 2006 og hækkaði um 3,9 milljarða frá fyrra ári eða um 18%. Skipting eigna í lok árs 2006 var þannig að 42% eigna var í skuldabréfum og 58% í verðbréfum með breytilegum tekjum þ.e. hlutabréfum, skuldabréfum og hlut-deildarskírteinum, 71% í innlendum verðbréfum og 29% í erlendum verðbréfum.
Samkvæmt tryggingarfræðilegri úttekt í lok ársins eru eignir umfram heildarskuldbindingar 4,2 milljarðar eða 12,6%. Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu sjóðsins hefur stjórn hans ákveðið að leggja til við ársfund sem haldinn verður á Ísafirði 17. maí nk. að öll áunnin lífeyrisréttindi og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkuð um 10% frá 1. janúar 2007.
Með þessarri hækkun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga á áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga hafa réttindin verið hækkuð um 21% á sl. 5 árum.